144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[18:15]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Forseti. Já, það er svolítið skrýtið að vera með þetta mál hér til umfjöllunar núna í fyrri umr. 1. júní, miðað við það að þingi átti að ljúka 29. maí. Það hefði auðsjáanlega þurft að klára þetta mál áður en þingið færi heim því að það á að gilda um úthlutun 5,3% af heildarafla á fiskveiðiárinu sem byrjar 1. september nk. Það er því alveg ljóst að það er ekki seinna vænna að taka þetta mál til umræðu, en það er kannski dæmigert einmitt fyrir það hversu illa ríkisstjórninni hefur tekist að skipuleggja starf sitt og þau mál sem lögð eru fyrir Alþingi og eru nú að hleypa hér öllu í hin mestu vandræði, virðulegi forseti. Við erum sem sagt að fjalla hér um hvernig á að úthluta 5,3% af heildarafla og mér fannst það koma fram í andsvörum fyrr í dag og skýringum hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar í andsvari við mig — ég velti fyrir mér af hverju 5,3%. Af hverju ekki eitthvað annað? Hann þekkir þessi mál náttúrlega mjög langt aftur í tímann, ég held að ég fari rétt með efnislega þegar ég hef eftir honum að þetta væri í raun samsafn af alls konar aðgerðum sem hefðu verið gerðar í byggðamálum. Þarna að baki liggja svo sem engir vísindalegir útreikningar og sumir eru á því að þetta hlutfall megi vera hærra. En mér finnst eiginlega sorglegt að ekki skuli liggja að baki þessu einhverjar vísindalegri ákvarðanir en samsafn pólitískra ákvarðana. Það er náttúrlega afleiðing af því hvernig fiskveiðistjórnarkerfið er rekið hérna. Það hefur vissulega leitt til þess að hér rekum við mjög hagkvæman sjávarútveg og það er gott vegna þess að sjávarútvegur er grunnatvinnugrein hér og þess vegna verð ég að skjóta því hér inn að mér finnst alltaf svolítið kúnstugt þegar menn segja að sjávarútvegur sé ekki ríkisstyrktur eins og til dæmis í Evrópusambandinu, segja menn.

Auðvitað er ekki hægt að líkja þessu tvennu saman vegna þess að hjá okkur er þetta grunnatvinnugrein. Hvað sem okkur annars finnst um kvótakerfið hefur það þó stuðlað að því að hér er rekinn mjög hagkvæmur sjávarútvegur.

Svo við tökum áfram þessi 5,3% sem við stjórnmálamenn ætlum núna að úthluta vil ég ekki gera lítið úr því að það þarf að grípa inn í kvótakerfið og það þarf að vera með byggðaráðstafanir. Mér finnst ekki nógu miklar rannsóknir á bak við þetta og síðan held ég að það mætti nota uppboð meira til að skipta á milli hinna ýmsu þátta. Við ætlum sem sagt að ákveða hér að af heildinni, 5,3%, ætlum við að skipta á að giska 31,85% til strandveiða, 5,18% til rækju- og skelbóta og 24,65% til stuðnings byggðarlögum. Það er kúnstugt hvernig að við ætlum í þingsal að taka ákvarðanir um þessar prósentur. Auðvitað er þetta byggt á einhverri reynslu en mér finnst það ekki liggja nógu vel fyrir.

Mig langar til að nefna sérstaklega makrílinn. Hérna kemur fram að 80% af makrílnum sem á að úthluta á grundvelli umsókna verður úthlutað á skip. 20% á að úthluta samkvæmt umsóknum frá sveitarfélögum. Það á að taka fyrir þetta gjald, en það kemur hvergi fram hvað það á að vera hátt eða hvernig á að ákveða það. Það á væntanlega að gera það með því að setja fingurinn upp í loftið og athuga hvaðan vindurinn blæs. Það er alveg ótrúlegt að hæstv. sjávarútvegsráðherra skuli ekki leggja til að nota þó þetta til að reyna uppboðsleiðina, að í stað þess að menn sæki um bjóði menn í. Þá kæmi í ljós hvað menn eru tilbúnir að borga fyrir að veiða makrílinn. Þess ber að geta að síðan á líka að greiða fyrir sumargotssíldina, en þess er þó getið hérna að það eru 16 kr. sem á að greiða fyrir kílóið en ekkert er gefið upp um upphæðina fyrir makrílinn.

Mig langar aðeins til að minnast hér á það sem kallað er aflamark eða sérstakur byggðakvóti Byggðastofnunar þar sem verið er að byggja þetta upp og mér skilst að það sé kannski í þriðja skiptið núna sem þessi sérstaki byggðakvóti Byggðastofnunar er lagður til. Hann er sem sagt frábrugðinn almenna kvótakerfinu en mér skilst að það hljóti að verða úthlutað til fiskvinnslustöðva. Það er að minnsta kosti úthlutað til bæjar- eða sveitarstjórna eða bæja og þorpa. Það hefur komið fram í umræðunni að menn segja: Þetta er sniðugt, vegna þess að þá verður kvótinn eftir í þorpinu eða bænum en útgerðarmenn geta ekki farið með hann burt eins og því miður hefur tíðkast.

Virðulegi forseti. Eftir því sem ég best veit og reyndur maður og vitur sagði mér var þetta þannig í upphafi kvótakerfisins. Til dæmis var skelfiskinum úthlutað þannig að fiskvinnsluhúsin fengu honum úthlutað. Þetta var í nokkur ár en síðan var þetta afnumið kviss bang eins og gjarnan er gert þegar fjallað er um þennan mikla atvinnuveg okkar og þessu úthlutað til skipanna. Þetta mun sem sagt ekki vera nýtt og hafði tíðkast áður fyrr með skelfiskinn.

Mig langar aðeins til að koma inn á línuívilnunina. Þegar hún var sett á í upphafi, ég verð að segja að mér þótti ekki mjög gáfulegt ef ég má nota það orð, gekk hún út á að þá máttu menn ekki nota beitningarvélar. Menn urðu að handbeita. Skilyrði fyrir því að fá kvóta í línuívilnun var að menn hyrfu aftur til aðferða sem voru ekki jafn hagkvæmar og best gerist.

Svo kemur reyndar fram í þessu áliti núna að það eigi að greina leiðir til að línuívilnun færist í einhverjum mæli yfir á báta með beitningarvélar án þess að hafa veruleg neikvæð áhrif á þær byggðir þar sem úrræðið skiptir mestu máli. (Forseti hringir.) Ég átta mig ekki á því hvort þetta eigi að gera svona líka kviss bang eða hvort það eigi að verða einhverjar rannsóknir á bak við hvernig þá ætti að breyta til í þessu efni.