144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[19:04]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég bý í veruleikanum og til þess að taka dæmi úr honum, taka dæmi um það sem ég er að hugsa, nefni ég Flateyri. Þar gerðist það nánast á einni nóttu að það uxu fætur á kvótann og hann gekk í burtu, hann hvarf á einni nóttu. Eftir stóðu atvinnutækin, þ.e. húsin og vélarnar o.s.frv., og fullt af fólki án atvinnu. Við erum tala um kerfið eins og það er í dag, þetta frumvarp sem við ræðum varðar kerfið eins og það er í dag og ég velti fyrir mér: Telur hv. þingmaður ekki að við slíkar aðstæður sé réttlætanlegt á einhvern hátt að grípa til aðgerða eins og að úthluta byggðakvóta? Ekki förum við í að búa til einhverja nýja innviði eða nýja atvinnugrein einn, tveir og þrír, það þarf með einhverjum hætti að brúa bilið.

Ég er þeirrar skoðunar að sú aðferð sé réttlætanleg sem menn hafa tekið upp á síðustu tveimur árum, með því að taka upp þennan sérstaka kvóta í gegnum Byggðastofnun, sem hefur reynst miklu betur en almenni kvótinn. (Forseti hringir.) Ég sé ekki betri leið til þess að bjarga því sem er kannski neyðarástand. Hv. þingmaður getur kallað það eina af fjölmörgum reddingum, en þetta er eina reddingin sem bjargar þessari stöðu.