144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[19:17]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna og langar að spyrja hann út í það sem við vinstri græn höfum velt töluvert fyrir okkur. Hann kom aðeins inn á reglurnar um meðferð og mismun á milli svokallaðs makrílfrumvarps og meðferðarinnar sem þetta frumvarp leggur til, að það stangist á. Okkur er tíðrætt um minni byggðirnar. Mér er þetta úrræði Byggðastofnunar hugleikið og langar að velta því upp með þingmanninum. Það kemur fram í þessu frumvarpi, þar sem talað er um áherslur, að mun meiri jákvæðni sé gagnvart byggðakvótanum sem fer í gegnum Byggðastofnun og úthlutun hans en til hins hefðbundna almenna byggðakvóta sem við þekkjum svo vel. Hv. þingmaður talaði um uppboðsleiðina sem Samfylkingin hefur talað um. Við höfum aðeins horft til annarra leiða.

Þá langar mig að velta því upp með þingmanninum hvort hann sjái fyrir sér að tekjurnar af þessum aflaheimildum, sem til dæmis kæmu af makríl eða hverju það væri, eins og kemur fram í lið nr. 8 á forsíðu þingsályktunartillögunnar, yrðu nýttar í byggðatengd verkefni til þess að auka fjölbreytni í byggðinni, í hinum litlu byggðum sem byggjast fyrst og fremst á útgerð. Mætti að einhverju leyti sjá fyrir sér, hvort sem það væri í gegnum sóknaráætlanir eða á annan hátt, að hægt væri að nýta (Forseti hringir.) fjármunina til uppbyggingar á stöðunum?