144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[20:43]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég kem nú úr kjördæmi þar sem þessi aðgerð nánast hófst, þ.e. skemmst er að minnast Raufarhafnar þar sem síðasta ríkisstjórn setti af stað verkefni árið 2012 og það hefur heldur betur sýnt sig að stuðningur Byggðastofnunar hefur skipt þar máli. Verkefnið hefur orðið til þess að það hefur örlítið hægt á fólksfækkun og þar er komin t.d. upp fiskvinnsla sem hóf störf í haust minnir mig. Þar kom fram þegar ég fór þangað í heimsókn að menn voru afskaplega ánægðir með akkúrat þetta verkefni. Svo bættust auðvitað fleiri sveitarfélög inn í, Bíldudalur og Breiðdalshreppur. Svo kom Skaftárhreppur inn, á öðrum forsendum að vísu en inn í þessar brothættu byggðir sem Byggðastofnun hélt utan um. Þessi kvóti var hluti af því verkefni.

En við Vinstri græn viljum leggja áherslu á að það þurfi að auka þennan hlut, þetta þurfi að vera meira. Ég tók einmitt dæmi áðan af Djúpavogi þar sem við þekkjum að Vísir fór með ansi stóran afla og einnig Þingeyri, Húsavík þar sem þetta allt skiptir máli. Ef við viljum koma inn þar eingöngu með kvóta eða fisk þá þarf þetta að vera mun stærra. En svo er líka vert að hafa í huga að það er hægt að leggja það til með öðrum hætti að einhverju leyti en það er auðvitað fátt sem kemur í staðinn fyrir það þegar 3–4 þúsund tonn hverfa með öllu úr byggðarlagi og vinnsla leggst af og íbúum á litlum stöðum fækkar mjög mikið. Ef þetta á að vera alvöruaðgerð þá held ég að við þurfum að taka mun stærri hlut inn í þetta og ráðstafa þá fjármunum sem gætu af þessu komið í önnur verkefni.