144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[20:58]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að þessi sérstaki byggðakvóti Byggðastofnunar sé tæki sem við getum haldið áfram að nýta enn betur og eigum að beina hinum hefðbundna byggðakvóta fremur inn í þann farveg og þá tengi ég það möguleikum á að auka byggðatengingar, byggðafestu aflaheimilda með einhverjum hætti til að fólkið í þeim byggðum hafi einhvern fyrirsjáanleika. Þegar verið er að tala um að endurskoða kvótakerfið er alltaf talað um að útgerðirnar þurfi að hafa svo mikinn fyrirsjáanleika, gera samninga til 20 og eitthvað ára, en hvaða fyrirsjáanleiki er hjá þeim íbúum sem eru ekki með á sinni hendi rekstur þessara útgerða og fyrirtækja? Það er ekki nokkur fyrirsjáanleiki. Auðvitað má kannski segja að enginn heilvita maður fari að byggja hús eða kaupa hús á slíkum stað. En fólk hefur nú samt gert það. Það sem mér finnst vanta er að einhver festa og öryggi sé líka til staðar í þeim sjávarbyggðum, að þetta óhefta markaðskerfi sem er núna í gangi ráði ekki eitt för.

Ég er ekki endilega að segja að við eigum að hafa einhverja, hvað má segja, neyðaraðstoð sem heldur áfram að vaxa og vaxa. Við eigum að reyna að gera þessar byggðir sjálfbærar. Það held ég að eigi alltaf að vera markmiðið. Þess vegna verður þetta sérstaka aflamark Byggðastofnunar auðvitað mjög kvikt og lifandi og fer á milli staða, en að Byggðastofnun hafi samt þetta tæki af því að hún hefur það verkefni að horfa til byggðalegra sjónarmiða og við eigum að reyna að beina sem mestum aflaheimildum eða að minnsta kosti eins og þörf er á hverju sinni til þeirra aðgerða.