144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:34]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og að koma inn á svæðaskiptingu strandveiðanna. Eins og við þekkjum bæði hafa verið deildar meiningar um það hvort rétt sé gefið í þeim efnum. Innan hvers svæðis eru mjög ólík veðurfarsleg svæði og það spilar líka inn í að það getur verið gott veður á Breiðafirði þegar það er leiðinlegt veður fyrir utan norðanverða Vestfirði og öfugt, út af Patreksfirði og á því svæði. Þetta eru mismunandi veðursvæði. Upp hafa komið hugmyndir um að reyna að mæta þessu bæði með því að taka til samanburðar einhver ár og skoða skiptingu á milli svæða, hve margir bátar eru innan hvers svæðis og hvað hefur skilað sér á hvern bát. Mér finnst rétt að það sé haldið áfram að skoða þann samanburð til að bæta þetta kerfi. Þetta kerfi er gott en það er ekkert sem segir að það megi ekki skoða það í ljósi reynslunnar. Eins þarf að horfa til öryggissjónarmiða, hvernig hægt er að koma með sem best hráefni í land og auka hagkvæmni þessara útgerða innan strandveiðihlutans.

Sú sem hér stendur lagði hugmyndir í þessum efnum inn í vinnu sem var unnin á síðasta kjörtímabili um að skoða jafnvel að það yrðu fastir dagar innan hvers mánaðar. Þá gætu menn farið þegar vel viðraði og farið lengra út á miðin og næðu í betra hráefni. Hvernig líst hv. þingmanni (Forseti hringir.) á þá útfærslu?