144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[22:36]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nákvæmlega eins og hv. þingmaður nefndi snýst þetta um öryggissjónarmið, þetta snýst um hagkvæmni og þetta getur snúist að einhverju leyti um gæði fisksins. Ég held að sú hugmynd að setja fasta daga, þ.e. fjölda daga innan hvers mánaðar, sé einn af möguleikunum og fullkomlega skoðunarinnar virði, samanber þá hugmynd sem ég nefndi sem dæmi, að menn færu í 12 daga og tækju svo bara fjöldann sem kæmi út úr því. Einhvern veginn verða menn svo hugsanlega að stýra bátafjöldanum, að þá komi ekki einhver ósköp af viðbótarbátum enda mega menn ekki hreyfa sig á milli svæða nema eftir ákveðnum reglum.

Ég skora á hv. þingmann að taka þetta upp í atvinnuveganefnd og óska eftir því að þetta verði skoðað, ef ekki klárað núna. Maður veit svo sem ekki hve mikil pressa verður á að ljúka þingi, en ef við höfum hvort sem er allt sumarið verður nægur tími til að skoða þetta, en skoða þá fleiri möguleika. Eins og hv. þingmaður sagði líka verður þá ástæða til að gera úttekt á því hvernig þetta hefur dreifst. Það kemur nákvæmlega fram ef maður skoðar veðurfarið bæði á sunnan- og norðanverðu Snæfellsnesi, það er mjög ólíkt beggja vegna þar. Ef maður fer inn á Patreksfjörð og svo aftur yfir í Bolungarvík er þetta gríðarlega fjölbreytt svæði og geta verið mjög ólík tækifæri til að sækja sér fisk í byrjun hvers mánaðar. Það er alltaf áhætta í því ef menn fara í vitlausu veðri eða taka einhverja áhættu til að ná fiski vegna þess að annars missa þeir af honum.

Ég held að þetta séu allt saman hlutir sem þarf að skoða. Aðalatriðið er að strandveiðin á að vera hluti af þessu kerfi, á að vera með ákveðið magn. Það er vaxandi og ég fagna því. Það má hækka enn þá meira en síðan þarf að passa að þetta verði ekki nýtt kvótakerfi.