144. löggjafarþing — 116. fundur,  1. júní 2015.

áætlun um meðferð og ráðstöfun aflamagns sem dregið er frá heildarafla.

775. mál
[23:43]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hér voru greidd atkvæði um kvöldfund í dag og klukkan er nú að nálgast miðnætti. Margoft hefur verið gerð athugasemd við það að ekki sé nein nefndatafla í gangi og ekkert plan um það hvernig þinghaldinu vindur fram. Við höfðum þó gert okkur vonir um að við værum að lenda því hvernig við ætluðum að klára yfirstandandi sólarhring og þá í þokkalegum friði að því er varðar málsmeðferðina. Það er fjöldinn allur af þingmönnum sem á að mæta á nefndarfundi kl. 8 í fyrramálið þannig að ég held að það sé komið nóg, virðulegur forseti. Ég held að við ættum að láta þetta duga fyrir daginn, því að við viljum væntanlega að þingmenn séu þokkalega stemmdir þegar þeir mæta á nefndarfundi snemma í fyrramálið til að ræða mikilvæg mál. Ég vil að minnsta kosti biðja hæstv. forseta að svara okkur því hvernig hann hyggst halda þessum þingfundi áfram, því að mér sýnist hann sannarlega ekki á réttri leið.