144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[20:17]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Bæði ráðuneytin og stjórnmálaflokkana skortir stofnanaminni, sögulegt minni. Hv. þingmaður segir að þetta sé grótesk aðferð og það er alveg hárrétt hjá henni, en við komumst að því hérna fyrir 20 árum. Þá var samþykkt skýrsla um að færa ætti sjö stofnanir út á land og var byrjað á því að ein var færð og svo strönduðu menn og það rann upp fyrir stjórnvöldum þá að þetta var ekki góð aðferð. Menn bókstaflega töluðu sig niður á þá aðferð að fjölga útibúum eða eftir atvikum, ef til kæmu nýjar stofnanir, að setja þær upp úti á landsbyggðinni. Það er fullkomlega réttmæt krafa af hálfu landsbyggðarinnar þegar hún segir: Við eigum að fá okkar skerf af störfum sem ríkið hefur með höndum. Það er algjörlega eðlilegt. Spurningin er um aðferðina. Þessi aðferð hefur verið reynd og hún dugaði ekki og ósigur þeirrar aðferðar varð meðal annars undir mínum handarjaðri, vegna þess að ég tók þátt í þeirri tilraun. Þá komust menn að þessari niðurstöðu. Það er þess vegna sem það er svo heimskulegt af ríkisstjórninni (Forseti hringir.) að fara þá leið. Það er þess vegna sem ég sagði í upphafi að það skortir minni í stofnanir og stjórnmálaflokka.