144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:08]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég tek undir það að þetta er nokkuð sérkennileg staða sem við erum í, eftir að formenn stjórnarflokkanna hittu okkur, formenn annarra flokka, á fundi hér í gær og kom í ljós að þeir höfðu ekkert fram að færa til að reyna að ljúka þingstörfum.

Mig er farið að gruna, í ljósi þess að frumvarp um gjaldeyrishöft var ekki til umræðu á ríkisstjórnarfundi í morgun — það er ekki eins og það sitji fast í ríkisstjórn, það var bara ekki rætt í ríkisstjórn í morgun — að hér sé verið að setja upp leikrit til að breiða yfir það að ríkisstjórnin ræður ekki við að marka stefnu í brýnum hagsmunamálum og vill halda þinginu hér starfandi að tala um eitthvert fánýti, eins og heimild sem átti að setja í lög til að heimila forsætisráðherra að flytja Fiskistofu, sem nú er hætt við að flytja. Það er mjög sérkennilegt að ræða hér heimildir sem þörf er á til að gera eitthvað sem átti að gera í fyrra.

Ég hlýt að kalla eftir því að forusta ríkisstjórnarinnar skýri fyrirætlanir sínar um þinghaldið. Það hefur aldrei áður gerst í þingsögunni að menn séu hér í algeru tilgangsleysi að tala um tilgangslaus mál. Það er vegna þess að forusta ríkisstjórnarinnar ræður ekki við að marka stefnu um hagsmunamál landsins.