144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:11]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Það er dálítið merkilegt að nú þegar starfsáætlun þingsins er í raun útrunnin og við erum komin í einhvers konar tímaleysi — ég veit ekki hvernig á að lýsa því einu sinni — þá skuli það vera þetta mál sem við erum að ræða. Það er málið sem var prjónað utan um eitt valdakast sem snerist um að færa eina ríkisstofnun út á land; menn komust að raun um að það var ekki hægt, að það var óráð og það var vitleysa og það var prjónað utan um það eitthvert þingmál til að láta það líta eðlilega út, dulbúa kastið.

Þetta erum við að ræða núna undir þessum kringumstæðum og það er náttúrlega einkennilegt að ekki skuli hafa tekist að halda neina fundi um framhaldið. Ég spyr forseta hvort ekki eigi að reyna að ná einhverju lágmarksskipulagi í starfið hér svo að við getum haldið áfram og að minnsta kosti fengið að vita hvað næsti dagur ber í skauti sér.