144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[21:37]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður kom inn á flutning á opinberum störfum út á land í ræðu sinni. Það hefur oft reynst þrautin þyngri að flytja opinber störf út á land og ég tala nú ekki um stofnanir. Vissulega hafa verkefni verið flutt en oft hafa þau verið dregin til baka og því hefur fylgt óvissa og óöryggi þegar einhver störf hafa loksins komið um að þau séu ekkert föst í hendi.

Nú er ég ekki fylgjandi lagasetningu sem gengur út á að ráðherra hafi þetta bara einn í sinni hendi og þetta fari ekki til umfjöllunar Alþingis, ég tel vera rétt að við á Alþingi fjöllum um slíkt. Sér hv. þingmaður einhverjar leiðir til þess að styrkja möguleika á því að flytja störf eða stofnanir eða verkefni út á land með lýðræðislegum hætti?