144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[22:13]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég get kannski ekki alveg tekið undir það með honum að opinber störf skipti ekki máli fyrir landsbyggðina. Ég held að þessi ásókn í þau væri ekki ef það væri ekki reynslan að þau skiptu máli vegna þess að þau eru oft sérhæfð. Ég held að ástæðan fyrir því til dæmis að Akureyri nær svona að halda velli sé vegna þess að þar eru mjög stórir opinberir vinnustaðir, eins og Sjúkrahúsið á Akureyri og tveir framhaldsskólar, sem dæmi. Hvað varðar annað atvinnulíf úti á landi þá er það oft þannig eins og með sjávarútveginn að hann safnast á fárra hendur. Ég þekki það úr mínu kjördæmi þar sem eitt fyrirtæki í rauninni flytur starfsemina til Grindavíkur og þá er kvótanum kippt undan litlu sveitarfélagi. Við hv. þingmaður erum kannski ekki alveg sammála um þetta.

Staðan á Fiskistofu er að því er mér skilst þannig að höfuðstöðvar flytjast norður en starfsmannaveltan mun tryggja það að engum verður sagt upp heldur verða einhverjir ráðnir fyrir norðan eftir því sem þeim fækkar fyrir sunnan, en þó verður áfram útibú í Reykjavík.

Því spyr ég hv. þingmann hvort hann telji að þetta sé þá ekki ásættanleg lausn úr því sem komið er, þótt búið sé að valda stofnuninni skaða sem hefði aldrei þurft að vera ef menn hefðu bara vandað til verka í upphafi. En breytingin er þá sem sagt sú að forstöðumaður stofnunarinnar flytur út á land og síðan eru ráðnir sérfræðingar eftir því sem störf losna, hvort það sé ekki ásættanleg lausn.

Hitt er svo annað, og það er kannski spurningin, hvort hv. þingmaður telji ekki að eðlilegra væri að Alþingi mundi samt alltaf samþykkja svona breytingar, hvar lögheimili stofnana á að vera eða hvort honum finnst eðlilegt að ráðherra einn geti haft það vald.