144. löggjafarþing — 117. fundur,  2. júní 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[23:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég taldi mig nú lýsa ágætlega og efnislega hvers konar starfsemi gæti farið út á land eins og í mitt kjördæmi. Ég held að það sé alveg pláss fyrir stofnanir þar, það sé alveg kominn tími til að skoða það landsvæði betur í þeim efnum og þá skiptir auðvitað máli sá jarðvegur sem er fyrir ýmiss konar starfsemi og ég tel hann vera til staðar.

Mér finnst að þetta eigi ekki að vera ákveðið á borði hvers ráðherra hverju sinni með einhverjum pólitískum bægslagangi eins og ég hef komið inn á heldur eigi að ræða þetta með lýðræðislegum hætti á Alþingi og skiptast á skoðunum. En ég vil heldur ekki að landsbyggðin sé eingöngu með einhver útibú og einhverja eins eða tveggja manna starfsemi. (Forseti hringir.) Þar geta líka verið stofnanir hins opinbera og blómstrað og útibú hér í höfuðborginni.