144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

um fundarstjórn.

[11:41]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Hæstv. forseti. Ég kem hingað upp til að taka undir með hv. þm. Valgerði Bjarnadóttur. Það verður að endurskoða fyrirkomulag á liðnum Störf þingsins. Ég hef margoft óskað þess að við fáum skýrslu frá hæstv. forsætisráðherra um stöðuna á vinnumarkaði. Við þeirri beiðni, sem liggur inni núna, í þinginu, hjá forseta, hefur ekki verið orðið og þetta er sá liður þar sem einna helst er hægt að tjá sig um þá stöðu.

Ég hef ekki, þau sex ár sem ég hef setið hér á þingi — oft langa fundi — beitt fyrir mig fjölskylduaðstæðum þegar verið er að greiða atkvæði um lengd þingfundar. En nú ætla ég að segja, herra forseti: Klukkan átta á morgnana er ég yfirleitt nokkuð upptekin, einmitt af fjölskylduástæðum.

Er það þannig, hæstv. forseti, að ég eigi að stilla beiðni um að komast á mælendaskrá sjálfkrafa á tölvunni minni þannig að hún sendist alltaf átta á morgnana, en ekki af því, kannski vegna frétta að morgni til, að ég vilji tjá mig um eitthvað og geta brugðist við? Er það þá þannig að við eigum bara að nota þetta átómatískt í outlookinu okkar?