144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:48]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er hárrétt sem hv. þingmaður segir, það er mjög einkennilegt að það skipti máli hvenær á árinu maður veikist og ekki jafnræði í því. Ég ítreka það að mér finnst gott að heyra að taka eigi þetta mál upp í velferðarnefnd.

Ég skildi það þannig að við hefðum verið með — ég er nú ekki sérfræðingur í þessum S-merktu lyfjum — einhvers konar kerfi, að við tækjum þessi lyf inn þegar einhver önnur lönd væru farin að nota lyfið, hvort það var eitt af Norðurlöndunum og Bretland. Hvort það hefur síðan eitthvað breyst, það skal ég ekki segja.

Hv. þingmaður kom inn á greiðsluþátttökukerfi sem verið er að reyna að vinna í sem ég bind reyndar miklar vonir við. Það er ósanngjarnt í dag hvernig sum lyf kosta ekkert og sumir sjúkdómar geta síðan sett fólk í alvarlega fjárhagserfiðleika. Það á ekkert að vera þannig. Við hljótum að vilja reyna einhvern veginn að jafna þennan kostnað. Það getur verið að það verði erfið ákvörðun vegna þess að einhverjir hópar munu þá þurfa að greiða sem ekki hafa gert það hingað til en aðrir munu njóta. (Forseti hringir.)

Ég hlakka til þegar sú nefnd lýkur vinnu og við tökum það mál upp.