144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:24]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég tel að mestu veikleikarnir liggi sumpart í því að ekki er horft til þess sem augljóslega þarf að undirbúa og takast á við inn í framtíðina, breytt aldurssamsetning og augljós þörf á því sviði. Mér sýnist ekkert annað fram undan en að ráðstafa þurfi meiri fjármunum inn í það. Það eru fjárfestingar í ýmsum innviðum sem við höfum sparað, t.d. í vegakerfinu. Það gengur ekki svona. Við verðum að leita leiða til þess að auknar fjárfestingar í innviðum rúmist sem við höfum frestað. Þetta lága hlutfall, 1,2% af vergri landsframleiðslu, dugar ekki til að halda við þeim verðmætum sem eru í núverandi innviðum, þeir rýrna bara beinlínis samkvæmt greinargerð tillögunnar sjálfrar. Við hefðum líka einfaldlega þurft að stefna að því að reka ríkissjóð með meiri afgangi. Ímyndið ykkur hvað Seðlabankinn mundi taka því fagnandi ef það lægi fyrir að ríkið mundi beita auknum afgangi og aðhaldi í gegnum ríkisfjármálin og styðja þannig við peningastefnu á næstu missirum í gegnum ólgusjó eftir kjarasamninga, við afnám gjaldeyrishafta o.s.frv., u.þ.b. það besta sem gæti gerst, ríkisfjármálastefnan og peningastefnan styddu hvor við aðra en önnur færi ekki austur og hin í vestur eins og í tíð hrunstjórnarinnar. Síðan hefðum við auðvitað þurft að geta lagt af stað með jafnvel myndarlegri inngreiðslur á lífeyrisskuldbindingar framtíðarinnar o.s.frv.

Þetta er afar naumt þegar kemur að opinberum starfsmönnum. Ég er ekki viss um að þeir lesi þetta með mikilli ánægju, t.d. BHM-menn sem eru núna í löngu og erfiðu verkfalli og hafa mætt litlum skilningi, ef þetta er það sem þeim er boðið inn í framtíðina. Dugar þetta til þess að manna þessi störf, halda fólkinu, sérfræðingunum okkar heima? Verðum við samkeppnisfær við Norðurlöndin með svona framtíðarsýn? Ég efast mjög um það. Þetta er kannski ekki alveg raunhæft þegar upp er staðið. Við vitum líka að það er rétt sem hv. þingmaður nefnir, þetta kerfi hefur verið rekið undir miklu álagi (Forseti hringir.) undanfarin ár. Það er undirmannað nú þegar, mikið álag, menn hlaupa hraðar og létu sig hafa það í kreppunni (Forseti hringir.) en eru auðvitað orðnir þreyttir á því núna og vilja fara að sjá úrbætur í þeim efnum.