144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:37]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það sem er mjög nytsamlegt við ríkisfjármálaáætlun eins og við erum að ræða er einmitt sú staðreynd að hún speglar nákvæmlega stefnu sitjandi ríkisstjórnar. Það er mjög auðvelt að bera hana saman við stefnu annarra flokka, stjórnarandstöðunnar. Það sem er alvarlegast í þessu þingmáli er sú staðreynd sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon benti rækilega á, að það er beinlínis gert ráð fyrir því að hlutfall ríkisútgjalda í landsframleiðslu lækki.

Spurning mín til hv. þingmanns er: Hver telur hann að verði afleiðingin af því?

Að öðru leyti verð ég að segja að ég er ekki líkt því eins svartsýnn og margir þeir sem tala hér af hálfu stjórnarandstöðunnar um það hvort þessi áætlun mundi standast eða ekki. Ég tel að stjórnarandstaðan sem var áður við völd geti að vissu leyti verið stolt af þessari fjármálaáætlun vegna þess að það er alveg ljóst að hún byggir að verulegu leyti á þeim grunni sem lagður var af fyrrverandi ríkisstjórn. Það kom mjög skýrt fram í máli hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar sem rakti ýmsar tekjuöflunarleiðir sem núverandi ríkisstjórn hefur slegið af að þær stóðust vel tímans tönn. Það verður auðvelt fyrir næstu ríkisstjórn, sem hvorugur núverandi stjórnarflokka mun eiga sæti í, að taka sumar þeirra upp aftur. Það leiðir til þess að þá mun hagur ríkisins vænkast verulega.

Að öðru leyti, þó að tölur séu ónákvæmar í þessu plaggi eins og hér hefur verið sýnt fram á af tveimur fyrrverandi fjármálaráðherrum, tel ég að ríkisstjórnin eigi í seli og þá ætla ég fyrst og fremst að undirstrika að það er mjög líklegt að við það afnám gjaldeyrishafta sem fram undan er komi miklar tekjur til ríkisins sem hægt verði að nota til að greiða niður skuldir. Það mun ásamt þeim leiðum sem við höfum markað og munum taka upp aftur saman (Forseti hringir.) teikna sig til þess að hér geti í framtíðinni næsta ríkisstjórn lækkað skatta, farið svolítið betur í innviðina og hækkað það hlutfall sem við höfum hér verið að mæla í gegn.