144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Frú forseti. Við ræðum ríkisfjármálaáætlun til næstu fjögurra ára. Hér hafa verið fróðlegar umræður um þessi mál sem skipta framtíð landsins miklu, þ.e. hvernig við sjáum fram í tímann varðandi ríkisbúskapinn. Innkoma hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur í þessa umræðu er mjög sérstök, hvernig hún lítur á að staðið hafi verið að ríkisfjármálum undanfarin ár, að það hafi verið meining fyrrverandi ríkisstjórnar að brjóta sérstaklega niður velferðarkerfið að gamni sínu og ráðast á þá sem minna mega sín. Svona málflutningur er með ólíkindum og stenst enga skoðun. Allt skynsamt fólk veit betur. Þó að sumum þyki erfitt að heyra að hér hafi orðið hrun árið 2008 er það bara veruleikinn sem var og við erum enn að glíma við afleiðingar þess og þurfum að gera það áfram.

Eins og þessi rammi er uppbyggður verð ég að segja eins og fleiri sem hafa komið inn á það í þessari umræðu að maður hefur virkilega áhyggjur af því hvernig þetta samfélag á að þróast á næstu fjórum árum miðað við hve hratt er verið að skera niður í raun og veru það sem við viljum sjá í uppbyggingu innviða samfélagsins. Við vitum að það er mjög uppsöfnuð og brýn þörf í heilbrigðismálunum, samgöngumálunum, menntamálunum og víðar þar sem hefur þurft að draga saman seglin. Við þurfum líka að horfa til þess að við sem þjóð erum í samkeppni við aðrar þjóðir um íbúa. Það er orðið þannig að ungt fólk sem hugsar til framtíðar sinnar og hvar það vill búa í framtíðinni hugsar líka út fyrir landsteinana, hugsar um hvernig Ísland eigi eftir að þróast og hvernig verði að byggja hér upp heimili, ala upp börn og hvernig búið er um hlutina.

Þetta unga fólk hefur leitað mikið til Norðurlandanna. Út af hverju ætli það sé? Ætli það sé bara einhver útþrá og að það sé meiri sól þar en hér? Nei, ég hugsa ekki, það er eitthvað annað líka. Það finnur öryggi sem samfélagið veitir á svo mörgum sviðum. Þegar eitthvað bjátar á er öryggisnet til staðar, stuðningur við ungt fólk að koma sér þaki yfir höfuðið og þegar fólk menntar sig þarf það líka að geta treyst því að það skipti ekki öllu máli hvort það komi úr efnaminni fjölskyldu eða sé efnað. Menn geta treyst því að það hamli ekki því að þeir gangi menntaveginn. Svona mætti áfram telja.

Þessi ríkisstjórn er að höggva inn í allt þetta sem ég hef nefnt hér. Bara á síðustu tveim árum hafa menn óhikað gengið fram með að veikja bæði menntakerfið og heilbrigðiskerfið þannig að þar er mikið óöryggi á ferðinni. Gjaldtaka heldur áfram og samgöngumálin eru í uppnámi vegna þess að sú samgönguáætlun sem hefur verið lögð hérna fram passar ekkert inn í þann frakka sem þessi ríkisfjármálaáætlun er. Hvernig á ríkisfjármálaáætlun eða samgönguáætlun að vera trúverðug ef ekki er gert ráð fyrir fjármunum í framkvæmdir í þeim efnum? Einhvern veginn rýrir þetta trúverðugleika þessarar ríkisfjármálaáætlunar. Það er ekki gert ráð fyrir því hvað kemur út úr þeim kjarasamningum sem núna eru lausir. Stéttir innan BHM og Félags hjúkrunarfræðinga standa í erfiðum verkfallsátökum og það er ekki gert ráð fyrir nema 2% kaupmáttaraukningu næstu fjögur ár. Það er algerlega óraunsætt að telja að þessar stéttir sætti sig við svo litla kaupmáttaraukningu næstu árin. Það segir sig sjálft að menn eru þá ekki jarðtengdir heldur eru eitthvað fjarri veruleikanum. Þau grundvallarmál sem ráða því hvar fólk festir rætur, vill búa og byggja upp heimili sitt, eru því miður í mikilli óvissu. Fólk er uggandi um sinn hag. Þessi ríkisstjórn hefur hreykt sér af því að hún lækki skatta eins og almenningur sé endalaust ginnkeyptur fyrir þeim áróðri. Það er svipað og við mundum segja í rekstri á eigin heimili að við ætluðum að hætta að fá nokkrar tekjur til að standa undir útgjöldum. Það er sambærilegt við að við ætluðum að skera niður tekjur í heimilisrekstrinum og héldum að við þyrftum ekkert að skera útgjöld niður á móti. Auðvitað þarf ríkissjóður allra landsmanna á tekjum að halda til að standa undir velferðarkerfinu sem við viljum byggja hér upp og tölum um. Þeir flokkar sem nú eru við völd hafa tjaldað því að þeir vilji standa vörð um velferðarkerfið en þegar á hólminn er komið rísa þeir auðvitað ekkert undir þeim merkjum að gera það. Þeir draga saman samneysluna og reyna að koma meðal annars heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu inn í gjaldtöku á ýmsum sviðum og ná þannig inn tekjum og hreinlega skera niður og draga saman. Þetta er nokkuð sem við verðum að spyrna við fæti og vekja athygli á að þetta leiði bara til eins, að samfélagið verði miklu veikara og skellurinn meiri þegar við fáum hann þegar í ljós kemur að menn eru búnir að afsala sér svo miklum tekjum og skera svo mikið niður að það bitnar harkalega á almenningi í landinu og öllum innviðum þessa samfélags.

Ég vek athygli á því sem kemur fram í ríkisfjármálaáætlun á bls. 3:

„Í ríkisfjármálaáætluninni er við það miðað að fjárfestingar ríkisins sem hlutfall af landsframleiðslu haldist óbreytt, en það er 1,2% í fjárlögum fyrir árið 2015. Það þýðir að nokkurt svigrúm mun verða til að ráðast í brýn og arðbær framkvæmda- og fjárfestingarverkefni, bæði vegna þess að ný verkefni koma í stað tiltekinna framkvæmda sem lokið verður við á tímabilinu og vegna þess að framlög til fjárfestinga verða hækkuð til að halda í við vöxt landsframleiðslunnar.“

Þetta kemur hérna fram en það eru engar auknar nýframkvæmdir. Það var farið út í margar nýframkvæmdir á síðasta kjörtímabili þó að sumir haldi því fram að það hafi ekki verið gert. Það var ráðist í stórframkvæmdir eins og Norðfjarðargöng og fjárfestingar upp á 3,5 milljarða á Vestfjarðavegi 60, Landeyjahöfn og fleiri fjárfestingar sem má nefna og menn hafa reynt að tala niður. Það sem mér finnst vera mikið áhyggjuefni er sú mikla breyting sem orðið hefur frá tíð fyrri ríkisstjórnar, að það er verið að mylja undir þá sem eru efnaðir fyrir og létta af þeim sköttum. Það er verið að afsala sér miklum tekjum svo milljörðum skiptir í veiðigjöldum af þeim stærstu sem hafa skilað gífurlegum hagnaði, þessum stærstu fyrirtækjum í sjávarútvegi. Þau ættu virkilega að geta lagt meira til samfélagsins og svo er verið að hræra í tekjuskattskerfinu sem er það jöfnunartæki sem við höfum og gagnast best við að reyna að jafna kjör almennings í landinu. Innlegg ríkisstjórnarinnar í þessa kjarasamninga er að hræra í tekjuskattinum og ætla sér að fækka þrepunum niður í tvö. Það nýtist ekki vel þeim sem eru með lægri tekjur. Menn gætu gert breytingar á skattkerfinu með að hliðra til milli þrepa, lækka neðsta þrepið, hífa miðþrepið upp og gera einhverjar tilfæringar í þeim efnum sem mundi nýtast hinu almenna launafólki í lægri og millitekjum miklu betur. En því er alltaf haldið að fólki að það að lækka skatta skili sér beint í vasa almennings í landinu.

Það skila sér kannski nokkrar krónur í annan vasann hjá Jóni Jónssyni úti í bæ en næst þegar hann þarf að sækja sér heilbrigðisþjónustu, þarf að senda börnin sín í skóla eða keyra um þjóðvegi landsins sér hann að það skortir mikið upp á að ríkissjóður rísi undir því verkefni að halda þessum þáttum í lagi. Þá þarf Jón Jónsson trúlega að borga veggjöld til að komast einhvern spotta áfram, hann þarf að borga háar upphæðir í innritunargjald fyrir skólagöngu barnsins síns og borga sérstakar læknisaðgerðir, komugjöld og allt sem til fellur í þeim efnum þegar hann þarf að sækja sér heilbrigðisþjónustu. Ekkert norrænt velferðarkerfi lítur þannig út og þessi ríkisstjórn ætti að stokka upp í þessum málum ef hún ætlar að rísa undir því að Ísland sé eitt af þessum norrænu velferðarsamfélögum sem Íslendingar vilja tilheyra. Því miður hafa yfirboð ýmissa flokka eins og Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins fyrir kosningar verið þannig að það er dregin upp kolröng mynd í þessum efnum og ekki tengt á milli þess hvað gert er við skatttekjur og hvernig þær nýtast almenningi í landinu. Svo fara flokkar eins og Framsóknarflokkurinn fram með gífurlegar háar fjárhæðir í loforðum um að lækka skuldir íbúðareigenda. Það endaði í 80 milljörðum en voru eitthvað yfir 300 milljarðar í upphafi og átti að taka af hrægammasjóðum en voru svo teknir af sameiginlegum sjóði allra landsmanna, eitthvað um 80 milljarðar. Þessum peningum er sáldrað yfir þjóðfélagið eins og flórsykri sem gagnast ekkert því fólki sem virkilega þarf á því að halda heldur lendir á borðum þeirra sem geta alveg bjargað sér með húsnæði sitt og hafa fulla möguleika og burði til þess. Þetta er illa farið með almannafé. Það væri ýmislegt hægt að gera við þessa 80 milljarða, svo sem að bæta kjör aldraðra og öryrkja sem mér sýnist að núverandi ríkisstjórn ætli algerlega að hunsa, að það eigi að tengja það við almannatryggingakerfið að taka eitthvert mið af launaþróun í landinu. Það er til skammar hjá þessari ríkisstjórn að ætla ekki að lyfta kjörum þeirra sem búa við erfiðustu kjörin og hafa vissulega þurft að taka á sig byrðar eins og við vitum, alveg jafnt og allir landsmenn í hruninu.

Það má samt segja að á síðasta kjörtímabili þegar menn tóku á sig mikla byrði, það var ekkert annað í boði, hafi verið staðinn vörður um þá lægstlaunuðu, bæði aldraða og öryrkja. Það var sett varnarlína í tekjum um 210–220 þúsund. Það var þó það og það voru hærri mörk en margir sem voru á vinnumarkaði og voru þá með lægri mánaðartekjur en það. Það er ekki hægt að segja eins og hv. þm. Vigdís Hauksdóttir sagði áðan, að það hefði verið ráðist eitthvað sérstaklega að þessum hópi. Auðvitað fór hagur hans líka illa í þessu hruni sem olli því að allt fór hérna á hliðina. Við vitum að á því báru einhverjir aðrir ábyrgð á en sú ríkisstjórn sem tók að sér það vanþakkláta verkefni að þrífa eitthvað til og rétta við efnahag landsins eftir hrunið. Þess vegna er ánægjulegt að sjá að það byrjaði samfelldur hagvöxtur árið 2010. Hann var ekki fundinn upp af hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur. Hallarekstri ríkissjóðs var snúið við árið 2013 í síðustu fjárlögum fyrri ríkisstjórnar. Miðað við niðurstöðu síðustu kosninga hefði maður viljað að núverandi ríkisstjórn reyndi að varðveita þann árangur sem náðist á síðasta kjörtímabili, að hún héldi áfram burt séð frá ólíkum stefnum að byggja upp áfram innviði samfélagsins á þeim grunni en ekki afsala sér tekjum upp á tugi milljarða og hlaða undir þá ríkustu í samfélaginu á kostnað þeirra sem minna mega sín. Það er það sem hefur verið að gerast og mér sýnist verða áframhaldið, algert andvaraleysi gagnvart aga í ríkisfjármálum og að það sé einhver skýr stefna sem falli þá að öðrum stefnum eins og hvernig við ætlum að taka á móti þeim verkefnum sem bíða í heilbrigðiskerfinu. Þjóðin er að eldast, sem betur fer, og við viljum hlúa vel að öldruðum og þeim sem þurfa á heilbrigðisþjónustu að halda, við viljum hlúa vel að menntakerfinu því að þar liggur framtíðin, að við getum boðið unga fólkinu okkar og fólki á öllum aldri upp á að geta menntað sig og endurmenntað, sama hvar á lífsskeiðinu fólk stendur. Það skiptir máli í landi eins og Íslandi hvernig innviðirnir í samgöngumálum byggjast upp því að stærsta atvinnugreinin nú er orðin ferðaþjónusta sem byggir fyrst og fremst á náttúru landsins og því að hægt sé að komast vítt og breitt um landið til að njóta hennar. Þá þurfum við auðvitað að hafa þessa innviði í lagi, hvernig búið er um ferðamannastaði og hvernig samgöngurnar eru. Þetta skiptir gífurlegu máli og það þarf að afla tekna og ráðstafa þeim með jöfnuð í huga svo allir njóti þess (Forseti hringir.) en ekki bara sumir eins og mér sýnist vera stefna þessarar ríkisstjórnar.