144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[17:55]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er eitt af stærstu verkefnunum sem núverandi stjórnvöld og í raun og veru Alþingi sem slíkt, ekki bara ríkisstjórnin heldur bara við sem löggjafarþing, glímir við, losun fjármagnshafta. Það getur verið mikil ógn gagnvart kjörum almennings í landinu ef ekki tekst vel til, að óðaverðbólga fari af stað og allt sem henni fylgir. Aðilar vinnumarkaðarins hafa verið óttaslegnir þegar þeir hafa verið að ganga frá samningum, eins og almenni markaðurinn sem gekk frá samningum á dögunum, um hvaða afleiðingar losun fjármagnshafta hefði inn í þá samninga. Þetta er svo stór breyta sem ekki er sett niður með neinum hætti nema í einföldum orðum sem segja í raun ekki neitt. Það hefði þurft að slá miklu fleiri varnagla og varnaðarorð og styrkja miklu betur þessa áætlun til fjögurra ára.