144. löggjafarþing — 120. fundur,  5. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:33]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mig langar að byrja á því að hrósa forseta þingsins, herra Einari K. Guðfinnssyni, sem síðustu daga hefur stytt þingfundi, hætt að setja á þessa pressu að byrja þingfundi kl. 10 og ljúka þeim á miðnætti. Hann stytti þetta og sendi þar með skilaboð til formanna stjórnarflokkanna um að nú væri kominn tími til að setjast niður með formönnum minni hlutans, fara að ræða málin og reyna að finna lausn á því hvað er hægt að klára á þinginu. Hann á heiður skilið fyrir það.

Eins og hins vegar hefur oft komið fram hjá mér í þessum ræðustóli á forseti það til að hygla aðeins ráðherrum, kannski sér í lagi ráðherrum í sínum flokki og sér í lagi fjármálaráðherra. Ég hef séð það ítrekað. Ég hef líka tekið eftir því að reglum sem forsætisnefnd hefur sett sér um hvernig forseti eigi að stjórna vinnufundi hefur ekki alveg verið fylgt, t.d. hvernig barið er í bjöllur. Það er ákveðin taktík sem á að beita, menn eiga að passa sig á að bíða í fimm sekúndur, svo á að slá o.s.frv. Það er bara Silja Dögg sem fylgir þessu (Forseti hringir.) algjörlega óháð því hver er í ræðustól.