144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[15:43]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum tillögu til þingsályktunar um ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016–2019 eins og hæstv. forseti sagði. Þetta er mikið plagg upp á rúmar 54 síður en sjálf tillagan er ekki nema ein blaðsíða. Hitt er greinargerð með þessum tillögum.

Um hvað fjalla þær? Jú, þær vísa í helstu hagstærðir, áætlaðar heildartekjur ríkissjóðs á þessum árum, 2016, 2017, 2018 og 2019, heildargjöld, þau eru sundurgreind, heildarjöfnuð ríkissjóðs þessi ár, hver hann er áætlaður, frumjöfnuð ríkissjóðs, fjármagnsjöfnuð, heildarskuldir ríkissjóðs.

Síðan skiptir greinargerðin að sjálfsögðu máli vegna þess að þar eru settar fram áherslur ríkisstjórnarinnar og eftir atvikum þingsins ef það er samþykkt. Það var alveg hárrétt ábending hjá hv. þm. Guðbjarti Hannessyni sem benti á misræmið sem gert væri ráð fyrir í kaupmætti launafólks hjá hinu opinbera og síðan kjörum lífeyrisþeganna, fulltrúum fólks sem nýtur stuðnings frá Tryggingastofnun. Þetta er hárrétt ábending. Þótt þetta sé ekki í sjálfri þingsályktunartillögunni byggir hún á þeim rökum og þeim meintu staðreyndum sem hér eru settar fram. Gagnrýnin á þessa tillögu hefur einkum verið fólgin í því að benda á að þarna sé margt óljóst og í rauninni ekki tímabært að setja málið fram. Menn hafa nefnt vaxtakjörin. Við vitum ekki hvernig þau koma til með að þróast og þau ráðast af ýmsum þáttum. Menn hafa bent á kjarasamningana og skuldbindingar sem ríkisstjórnin hefur gefið í tengslum við þá. Þar má nefna 16 milljarða skattalækkun í tekjuskatti á þeim tveimur árum sem eftir lifa af þessu kjörtímabili.

Menn hafa líka nefnt afnám hafta, hvaða afleiðingar þetta kemur til með að hafa á stöðu ríkissjóðs og þær stærðir sem settar eru fram í þessu plaggi. Allt er þetta hárrétt.

En nú vil ég byrja á að spyrja: Er gott að setja niður plagg af þessu tagi, þ.e. tillögu til þingsályktunar um ríkisfjármálaáætlun? Það sem er gott við það er augljóst. Það er mikilvægt að við reynum að hugsa til framtíðar og hafa sæmilega fast land þar undir fótum, þ.e. eins og kostur er að setja niður fyrir okkur hvert stefnir, hverjar horfur eru o.s.frv. Þetta er að sjálfsögðu prýðilegt.

Nú koma hins vegar fyrirvarar mínir. Við þurfum að skoða þetta mál og þessa tillögu til þingsályktunar í samhengi við annað sem er að gerast, önnur frumvörp sem fram eru komin og stefnumótun sem liggur nú á borði Alþingis. Mig langar til að byrja á að vísa í frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Í 3. gr. þess er vísað í nýskipan svokallaðra ráðherranefnda og lögfestingu þeirra. Samkvæmt núgildandi lögum um Stjórnarráð Íslands er forsætisráðherra, með heimild og samþykkt ríkisstjórnar mögulegt að skipa ráðherranefndir, en hér er verið að lögfesta þær.

Í greinargerð um þann þátt stjórnarráðsfrumvarpsins segir, með leyfi forseta:

„Tillagan er jafnframt sett fram í samhengi við fram komið frumvarp til laga um opinber fjármál en samkvæmt þeim tillögum sem þar eru settar fram munu ábyrgð og valdheimildir ráðuneyta þegar kemur að framkvæmd fjárlaga aukast umtalsvert sem aftur kallar á aukna samhæfingu og samráð innan Stjórnarráðsins.“

Með öðrum orðum, í því lagafrumvarpi sem ég hef vísað hér til, um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands, er horft inn í þetta samhengi sem ég vek núna máls á. Í upphafsorðum greinargerðar með þingsályktunartillögunni segir, með leyfi forseta:

„Þingsályktunartillaga um ríkisfjármálaáætlun til næstu fjögurra ára er nú lögð fyrir Alþingi til umfjöllunar í fyrsta sinn á vorþingi samkvæmt lögum um þingsköp Alþingis. Með þessu nýja fyrirkomulagi er ætlunin að efla stefnumótandi umfjöllun sem beinist að markmiðum, meginlínum og heildarstærðum í fyrstu áföngum fjárlagaferlisins áður en frekari útfærsla fer fram við samsetningu fjárlagafrumvarps fyrir næsta ár.“

Þetta eru upphafsorðin í greinargerð með þingsályktunartillögunni sem við erum að ræða hér nú, þingsályktunartillögu um ríkisfjármálaáætlun fyrir komandi ár.

Hér er óbeint, en beint í stjórnarráðsfrumvarpinu, vísað í frumvarp til laga um opinber fjármál. Þar eru ýmsir sem hafa sett fram efasemdir og ég er í hópi þeirra. Ég vil skoða þetta allt saman í samhengi við það sem þar er lagt til. Hvað er lagt til þar? Það er lagt til að við reynum að fara með fjárlagagerðina inn í markvissari farveg en verið hefur og hugsunin er þá sú að það sé samþykkt ríkisfjármálaáætlun, hún byggi á yfirlýsingu ríkisstjórnar og samþykkt þingsins í upphafi hvers kjörtímabils þar sem sett eru niður grunngildi og meginstefnumið. Síðan sé gerð ríkisfjármálaáætlun til fjögurra ára og á hverju ári, á vorin, leggi ríkisstjórnin fyrir nákvæmari ramma sem byggi á því sem áður er hugsað. Allt er þetta í sjálfu sér til góðs. Með öðrum orðum, við erum að reyna að finna hvernig við getum unnið á markvissari hátt.

En bíðum nú við. Þegar farið er að skoða hugsunina í þessu og framgangsmátann sjáum við þarna hvernig útlistað er í frumvarpinu um opinber fjármál hvernig gerð skuli grein fyrir fjármálastefnunni og síðan fjármálaáætlun, grunngildum fjármálastefnu og fjármálaáætlunar og síðan skilyrðum fjármálastefnu og fjármálaáætlunar. Þar er farið að kveða við gamalkunnan tón. Ég kem aftur að því á eftir hvernig þetta fléttast allt saman við það mál sem við erum að ræða núna því að þetta er eins konar generalprufa sem ber ekki að taka mjög alvarlega, held ég. Þetta er rúmt plagg en menn ætla að fara með þetta inn í miklu strammari farveg í framtíðinni ef öll þessi áform ná fram að ganga. Í 7. gr. frumvarps til laga um opinber fjármál segir, með leyfi forseta:

„Markmið fjármálastefnu og fjármálaáætlunar um afkomu og efnahag hins opinbera, þ.e. A-hluta ríkissjóðs og A-hluta sveitarfélaga, skv. 1. tölulið 2. mgr. 4. gr. skulu samræmast eftirfarandi skilyrðum:

1. Að heildarjöfnuður yfir fimm ára tímabil skuli ávallt vera jákvæður og árlegur halli ávallt undir 2,5% af landsframleiðslu.

2. Að heildarskuldir, að frátöldum lífeyrisskuldbindingum og viðskiptaskuldum og að frádregnum sjóðum og bankainnstæðum, séu lægri en nemur 45% af vergri landsframleiðslu.

3. Ef skuldahlutfall samkvæmt 2. tölulið er hærra en 45% skal sá hluti sem umfram er lækka að meðaltali á hverju þriggja ára tímabili um a.m.k. 5% (1/20) á hverju ári.“

Síðan eru hagrænu forsendurnar í frumvarpinu skilgreindar nánar.

Hvað svo? Jú, síðan er skipað fjármálaráð með þremur fulltrúum, tveimur sem kosnir eru af Alþingi og einum sem forsætisráðherra skipar og skal hann vera formaður í þessu ráði. Hvert er hlutverk þessa ráðs? Hlutverk þessa ráðs er að fara yfir áætlunina og síðan fjárlögin þegar að því kemur að sjá hvernig þau mátast inn í áður samþykkta stefnu sem yrði þá þingsályktun sem við samþykkjum í vor. Síðan kemur fjárlagafrumvarp og þá á þetta fjármálaráð að skoða hvort við sem hér erum séum að gera rétt samkvæmt þeim gildum sem þarna eru. Þetta er fínt í fyrirtæki, eflaust alveg ágætt í fyrirtæki, en við erum ekki fyrirtæki, við erum samfélag og það getur ýmislegt komið upp á í samfélagi. Það geta orðið eldgos, það getur orðið alls kyns óáran, atvinnuleysi o.s.frv. Keynes hefði til dæmis ekki skrifað upp á þetta. Hann hefði sagt á tímum atvinnuleysis og ofsasamdráttar viljum við sem ríki eða sveitarfélög hafa svigrúm til að ráðast í dýrar framkvæmdir.

Þegar ég kom inn sem formaður BSRB á sínum tíma höfðu á vegum samtakanna verið byggðir tugir sumarhúsa í Munaðarnesi og austur á Eiðum. Við vorum í gríðarlegri skuld út af þessu. Hefði verið góð fjárfesting vegna þess að við höfðum litla kosti sem þá komum til stjórnunar í samtökunum til að gera annað en að borga niður skuldirnar? Já. Þetta var góð fjárfesting, mjög fín og næstu árin fóru bara í að ná niður skuldunum og fá fast land undir fætur. Þetta þurfa menn stundum að gera, þetta þurfa ríki og sveitarfélög að gera Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn er hins vegar ekkert mjög hrifinn af svoleiðis hugsun og vegna þess að honum hefur tekist að tala Svía inn á þetta fyrirkomulag halda allir að það sé einhver stimpill um ágæti fyrirkomulagsins. Ég hef um þetta gríðarlegar efasemdir. Þetta er það sem á útlensku er kallað „austerity“-nálgun til fjárlaga og ég skil mjög vel að Sjálfstæðisflokkurinn sé hrifinn af þessari nálgun en ég hefði haldið að vinstri kanturinn í Framsókn væri með einhverjar efasemdir. Ef menn halda að þetta mál fari eins og að drekka vatn í gegnum þingið í vor er það mikill misskilningur, held ég. Ég trúi ekki öðru en að það séu fleiri en ég á þessari skoðun. Eins og við vitum var þetta mál rifið út úr fjárlaganefnd fyrir nokkrum dögum og ef menn ætla að fara að þröngva þessari grundvallarlagabreytingu í gegnum þingið er það illa ráðið, tel ég vera. Þetta þarf að skoðast miklu betur.

Með öðrum orðum, ég held að þetta sé ágætt ef við lítum bara á ríkið sem fyrirtæki sem þurfi að vera í sem minnstri skuld. Þannig vil ég hafa það, ég tek það fram. Ég er því fylgjandi að við förum varlega með ríkisfjármálin og reynum að stefna að jöfnuði, að sjálfsögðu, og helst afgangi. Það finnst mér markmið en það á ekki að vera lögbundið markmið vegna þess að það geta komið upp aðrar aðstæður og við eigum ekki að negla okkur svona niður eins og tillaga er gerð um hér.

Síðan vil ég vekja máls á öðru. Hér er verið að gera fjármálaráði hátt undir höfði og festa í sessi. Er þarna eitthvert velferðarráð sem fylgist með því að við sinnum lögbundnum skyldum okkar við sjúklinga, við þá sem eiga að njóta góðs af almannatryggingum o.s.frv.? Það eru fleiri lög en fjárlög og meira hlýtur að hanga á spýtu hjá ríki og sveitarfélögum. Við hljótum að horfa til samfélagslegra þátta. Það er enginn að gera það nema náttúrlega þingið og ég vil efla þingið. Ég leggst ekki gegn því að við reynum ekki að hafa hemil á ríkisútgjöldum, að við reynum ekki að sýna ráðdeild og skynsemi, gera áætlanir og vera nákvæm í því. Ég er því fylgjandi að sjálfsögðu en þegar kemur að þessum þrengingum í lagatextum hef ég um það mjög miklar efasemdir og kalla eftir mikilli umræðu um þessi mál.

Síðan er eitt, þegar við hefjum umræðu um útgjöld til tiltekinna þátta nota menn mismunandi reikningslega nálgun í spurningum og svörum. Við heyrðum áðan að hæstv. velferðarráðherra talaði um að fjármagn til almannatrygginga hefði aldrei verið meira en nú. Ef við horfum aftur í tímann gildir hið sama um nánast alla þætti. Heilbrigðisþjónustan fær miklu fleiri krónur en hún gerði þegar við vorum fámennari þjóð, það liggur í augum uppi. Síðan eru aðrar reikningsnálganir eins og hlutfall af útgjöldum ríkisins og það er hægt að horfa á þetta með mismunandi hætti. Mér fannst athyglisverðar tölur sem komu frá hagfræðideild Landsbankans í októberlok þar sem fjallað var um Landspítalann. Ástæðan fyrir því að ég tek þetta upp er að það var vísað í tölur um Landspítalann í umræðu í síðustu viku. Hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson gerði það. Þá var aftur uppi á teningnum að þetta væri allt miklu betra en hefði verið áður. Það er það náttúrlega ekki. Það sem síðasta ríkisstjórn má eiga er að hún vildi tala hreint út um þessa hluti og segja satt og rétt frá. Í kjölfar hrunsins þegar tekjustofnar ríkis og sveitarfélaga hrundu varð auðvitað gríðarlegur samdráttur. Það voru dregin saman útgjöldin til allra þátta, mest til framkvæmda og minnst í millifærslukerfinu, en nánast allar stofnanir samfélagsins urðu á einhvern hátt fyrir barðinu á þessu. Við reyndum hins vegar að mæta þessu líka með skattahækkunum og fyrir fáeinum dögum tóku Staksteinar upp orð Viðskiptaráðs sem sagði að þá hefði verið slegið heimsmet, held ég, í skattahækkunum. Ég væri mjög stoltur af því heimsmeti en það er ekki þar með sagt að við séum með hæsta skatta. Við erum með miklu minni skatta sem hlutfall af þjóðarveltunni en til dæmis Norðurlöndin en við völdum þann kost frekar en að skera meira niður.

Ég ætla að vitna í þessa skýrslu frá Landsbankanum. Þar er metin þróun framlags til LSH og hve mikið hann hafi fengið af útgjöldum ríkisins síðustu 11 árin. Alls kyns fyrirvarar eru settir inn í þetta, en síðan segir, með leyfi forseta:

„Hlutur LSH var um og yfir 8% fram til 2007, lækkaði síðan niður í 5,6% en hefur svo aukist smám saman á ný. Önnur leið til að meta þróun útgjalda LSH er að skoða útgjöldin á mann á þessu tímabili. Á árinu 2013 voru fjárheimildir spítalans um 111 þús. kr. á mann og raunverulegur kostnaður um 127 þús. kr. Ef kostnaður á mann síðustu 11 ár er settur á fast verðlag ársins 2013 sést að kostnaðurinn var á bilinu 150–160 þús. kr. á mann fram til 2008 en lækkaði svo niður um 110 þús. kr. hvað fjárheimildir varðar og raunverulegur kostnaður varð þá um 120 þús. kr. Það er því ljóst að hallað hefur á spítalann á síðustu árum og gildir einu hvort miðað er við hlutdeild í ríkisútgjöldum eða kostnað á mann.“

Ég nefni þetta bara vegna ummæla hér í síðustu viku og síðan ummæla hæstv. velferðarráðherra. Við þurfum að horfa á raungildin þegar við metum stuðninginn sem velferðarstofnanir okkar fá og þá gildir ekki að vísa í krónutölufjölda því að hann segir okkur akkúrat ekki neitt.