144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:17]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég deili þeirri skoðun með hv. þingmanni, ég held að ekki hafi farið fram mikil umræða um þetta mál eða þá verið þannig: Hafið ekki áhyggjur af þessu, það er ekkert að marka þetta, við munum breyta þessu og það kemur fram í fjárlögum hvernig stefnunni er fylgt o.s.frv. Ég bind ekki vonir við að við munum sameinast um pólitískan ramma í ríkisfjármálaáætlunum en ég tel að umræðan sé gríðarlega mikilvæg. Þá saknar maður auðvitað stjórnarmeirihlutans í umræðunni þar sem hann tjáir skoðanir sínar á til dæmis breytingum á skattkerfinu eða hvort hann er sáttur við það o.s.frv. Menn tala þar um einföldun. Ég hef aldrei skilið að þegar menn eru komnir með fullkomnustu tölvukerfi þurfi alltaf að einfalda eitthvað til að geta ráðið við það.

Mig langar að koma að allt öðru. Hv. þingmaður nefndi einmitt í ræðu sinni hversu mikilvægt það væri að við byggðum á rauntölum, a.m.k. tölum sem væru byggðar á annaðhvort föstu verðlagi eða einhverju hlutfalli af til dæmis landsframleiðslu. Hann tiltók þá heilbrigðismálin vegna þess að menn hafa verið að leika sér þar að búa til tölur. Meðal annars var mjög athyglisvert hjá hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni sem telur að menn hafi aukið framlög um 10 milljarða. Svo kemur í ljós að það er jafnlaunaátakið, það er samningurinn um gjaldfrjálsar tannlækningar barna o.s.frv. Það er ýmislegt annað þar en þessi ríkisstjórn hefur nokkurn tíma komið af stað.

Ef menn ætla að standa við þann samning sem gerður var við lækna um að við ætlum að vera í fremstu röð og ráðstafa jafn miklu til heilbrigðismála og Norðurlöndin þurfum við að færa okkur úr því að vera með um 9% af landsframleiðslu yfir í það að vera nálægt 10%. Það eru 18–19 milljarðar í aukningu. Það er dæmi um það sem maður vill sjá, að maður setji sér svona markmið, að það sé ekkert óeðlilegt að við reynum að vinna út frá einhverjum ákveðnum prósentum, þ.e. af landsframleiðslu, því að það er mælikvarðinn á hvað við höfum til ráðstöfunar og möguleika á veltu í samfélaginu að við skilum því inn í mennta- og heilbrigðiskerfið sem er (Forseti hringir.) okkar grundvallarkerfi.