144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:09]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég stenst ekki mátið að óska hv. þingmanni og okkur Þingeyingunum hér og fleirum í salnum til hamingju með daginn. Ég á þá ekki við áætlun um afnám gjaldeyrishafta [Hlátur í þingsal.] heldur framkvæmdir við Húsavík og í Suður-Þingeyjarsýslu. Það er svo sem ekki fjarskylt efni þessarar tillögu. Þær miklu framkvæmdir og umsvif hafa tvímælalaust jákvæð fjárhagsleg áhrif.

Hv. þingmaður nefndi það hvernig á að mæta þeim niðurskurði sem boðaður er í þessari tillögu sem er veik fyrir. Hvernig eiga menn að mæta 1% aðhaldskröfu á ráðuneyti ef skera á niður á móti öllum launahækkunum opinberra starfsmanna umfram eiginlega ekki neitt? Og hvernig á að mæta því ef núna á að taka 20 milljarða útgjöld og tekjutap á ríkið í tengslum við kjarasamninga? Þetta eru ansi lausir endar og maður veltir fyrir sér hvort ekki sé gagnslaust að samþykkja þessa tillögu nú. Er ekki ráðlegast að bíða bara eftir fjárlagafrumvarpi í haust og fá tillögu að ári sem uppfyllir kröfur um að (Forseti hringir.) útfæra rammann? Stóra spurningin er: Á Alþingi að eyða meiri tíma í þessa tillögu sem þegar er í raun og veru marklaus?