144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:13]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála hv. þingmanni. Það er ekki bara það að ýmislegt hafi gerst frá því að tillagan var lögð fram og tekin út úr nefnd heldur koma líka mjög ítarlegar athugasemdir við það í nefndaráliti minni hlutans. Það var heilmikið vitað fyrir að óvissa væri um. Byggt á þeirri óvissu einni hefðu menn átt að skoða þetta mál betur og svara að minnsta kosti þeim spurningum sem koma fram í nefndaráliti minni hlutans. Það er ekki gert og núna erum við komin enn lengra frá veruleikanum með þeim breytingum sem hafa orðið í umhverfinu á síðustu dögum og eru fyrirséðar á komandi missirum.

Ég fór líka yfir það í minni ræðu að ég átta mig ekki á því hvar menn ætla að skera niður miðað við það sem boðað er. Útgjaldaaukningin upp á 1,2% á milli áranna 2016 og 2017 stemmir ekki við það sem kemur fram í texta um verðbólguáhrifin og útgjaldaaukningu innan ákveðinna málaflokka, kaupmáttaraukningu hjá opinberum starfsmönnum og innan almannatrygginga. Það stemmir ekki nema menn séu að fara í mjög mikinn niðurskurð og um hann er (Forseti hringir.) ekkert fjallað hér.