144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:17]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hagur ríkissjóðs hefur vænkast mjög. Hér varð til töluvert svigrúm strax á árinu 2013 til að setja fjármuni inn í þá málaflokka sem þurfa helst á að halda. Menn ákváðu að nota það svigrúm til að færa fjármuni til þeirra sem mest hafa með því að afsala sér tekjustofnum eins og auðlegðarskatti, veiðigjöldum o.s.frv. Við hefðum aldrei notað svigrúmið með þeim hætti og þess vegna erum við að sýna á spilin með það með hvaða hætti við mundum nota þetta svigrúm sem hefur skapast í ríkisfjármálunum og er fyrirséð að verði meira vegna þess að við munum fara að greiða niður skuldir og eiga þá meira borð fyrir báru af því að við erum að greiða of mikið í vaxtagjöld í dag. Það er líka fyrirséð að ef hagvaxtarspár ganga eftir verði hér enn meira svigrúm. Við hefðum notað þetta allt öðruvísi en til að lækka álögur (Forseti hringir.) á þá sem mest hafa.