144. löggjafarþing — 124. fundur,  8. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[19:14]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir ræðu hv. þingmanns og vil velta því aðeins upp sem hefur verið rætt hérna að þessi áætlun er eiginlega kannski orðin frekar marklaus, svo ég taki vægt til orða. Ég átta mig ekki alveg á því hvort ég á að taka þessu sem einhverri frumraun í að gera ríkisfjármálaáætlun, og verði þess vegna að hafa mikinn skilning á því að þetta sé allt frekar loðið og kannski ekki nógu ítarlegt, eða hvort ég eigi ekki að gera þá kröfu að hér sé reynt að vanda til verka og að þetta sé almennilega góð og ítarleg áætlun. Er að mati þingmannsins kannski ástæða til að taka þetta aftur inn í nefnd eða gera bara kröfu um að fá nýja ítarlega og vandaða áætlun, sérstaklega í ljósi þess að allar forsendur eru meira eða minna brostnar?