144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:27]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Samkvæmt þessu plaggi sem við erum með hérna til umræðu er samneyslan ekki að aukast, hún á að dragast saman. Það hlýtur þá að vera svo að ef það á að styrkja þessa hluti eigi að draga saman á einhverjum öðrum sviðum. Gott og vel, ég tek því eins og það er sagt, en þá saknar maður þess að þessi áætlun sé ekki meira í römmum en er enda eru allir sammála um að áætlunin sé að stíga sín fyrstu skref og vanbúin að því leyti.

Svo langar mig til að spyrja þingmanninn um afstöðu til sölu Landsbankans sem er í áætluninni. Hann segir allt í einu í lok ræðu sinnar að vaxtagreiðslur fari væntanlega lækkandi út af aðgerðum varðandi höftin og þess vegna verði einhverjir peningar til og þá þurfi að endurskoða hugmyndir um sölu á ríkiseignum. Er hv. þingmaður að segja að hann (Forseti hringir.) sé líkt og flokkssystkini hans á flokksþingi Framsóknarflokksins á móti sölu Landsbankans?