144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[14:47]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég held að það sé ekki ofmælt að það væri skynsamlegra að senda þessa tillögu aftur til fjárlaganefndar aftur og láta henni fylgja í það minnsta breytt nefndarálit. Það er betri bragur á því en að hafa þetta áfram í þinginu til umræðu undir þeim kringumstæðum sem við þingmenn stjórnarandstöðunnar höfum rakið hér töluvert. Hér kom aðeins fram í máli hv. þm. Karls Garðarssonar áðan í andsvörum að auðvitað eru hér stórar breytur sem væri vert að skoða. Auðvitað er ekki verið að tala um að taka upp alla áætlunina, ég mundi að minnsta kosti ekki leggja það til, en það eru veigamikil atriði sem við þurfum í fjárlaganefnd í það minnsta og auðvitað þingheimur allur að fá að vita hvaða áhrif hafa, bæði varðandi kjarasamningana og svo byrjunarferlið á losun hafta sem var kynnt í gær.

Þetta eru allt of stórar breytur til að við látum þessa nýju framsetningu á þingmáli fara í gegn með þeim hætti sem hér virðist eiga að gera.