144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[16:08]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það sem mig langar að nefna er að í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni segir:

„Spáð er að verðbólga verði á bilinu 2,5–2,7% á árunum 2016–2019.“

Síðan segir neðar:

„Með því er gengið út frá tiltekinni kaupmáttaraukningu opinberra starfsmanna sem miðað er við að verði að hámarki 2%, þ.e. að árleg meðallaunahækkun verði ekki meira en 2% umfram verðbólgu.“

Síðar segir:

„Almennt er gert ráð fyrir 1% raunvexti í umfangi vel flestra rekstrarmálaflokka ríkisins …“

Svona gæti ég haldið áfram. Þetta eru orð sem stemma engan veginn við töfluna um áætlaða útgjaldaaukningu þar sem eingöngu er um að ræða 1,2% aukningu útgjalda. Ég spyr: Hvort voru menn sem lögðu þetta fram og afgreiddu frá fjárlaganefnd án þess að gera á þessu einhverjar breytingar eða koma með einhverjar skýringar að reyna að villa um fyrir fólki eða vita ekki betur? Skoðuðu þeir ekki tölurnar? Reiknuðu þeir þetta ekki saman?

Ég átta mig ekki á þessu (Forseti hringir.) og tel það verða fjármálaráðherra til minnkunar ef við samþykkjum áætlunina, svo hressilega götótta sem hún er.