144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

ríkisfjármálaáætlun fyrir árin 2016--2019.

688. mál
[18:10]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég tók það fram í ræðu minni, og það er líka tekið fram í þessu skjali, að forsendur geta breyst. Ég held við höfum engin tök á því að setja fram framhaldsnefndarálit á þeim skamma tíma sem er til stefnu, jafnvel þó að við verðum hér í sumar sem ég á allt eins von á. Ég held að málið snúist svolítið um það, með fullri virðingu fyrir hv. stjórnarandstöðu, að hún ætli að ná sínu fram með því að tefja mál. Það kom mér á óvart að umræða yrði jafn mikil og raun bar vitni um þessa áætlun, svo að ég sé nú bara hreinskilinn hvað það varðar. Það breytir litlu um það.

Ef við ætluðum, eins og menn hafa talað um hér fram og aftur, að ná fram ýtrustu kröfum varðandi áætlanagerð til þriggja ára þá erum við að fara í miklu dýpri vinnu en sem því nemur að ég kalli saman nefndafund í hv. fjárlaganefnd, jafnvel þó að þeir væri tveir eða þrír, til að setja einhverja fyrirvara á það sem við vitum að við verðum að hafa fyrirvara á.

Ég lít á þetta, eins og ég nefndi, sem part af stærra þroskastigi. Þetta er gott skref, en ég er miklu spenntari að stíga næsta skref.