144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[21:02]
Horfa

Katrín Júlíusdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það var hart deilt á þessa ríkisstjórn þegar svokallaður bandormur var samþykktur hér við fjárlagagerð fyrir ekki svo löngu síðan þar sem tekin var ákvörðun um að lækka hlutfallstöluna 0,325% í ráðstöfun tekna af almennu tryggingagjaldi sem gengur til jöfnunar og lækkunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Við gagnrýndum harðlega þá breytingu og hér er hún dregin til baka. Þetta átti að vera fyrsta skrefið af fjórum sem tekin yrðu til að taka þetta hreinlega út. Nú er verið að ganga til baka og það er gert í tengslum við yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar sem dagsett er 28. maí sl.

Við hljótum að fagna því að verið sé að gera þetta, þetta er í samræmi við málflutning okkar og verkalýðshreyfingarinnar sem gagnrýndi þetta harðlega. En verkalýðshreyfingin gagnrýndi fleiri þætti á sínum tíma, þar á meðal að verið væri að draga úr vinnumarkaðsaðgerðum, svokölluðum virkniúrræðum. Mig langaði að spyrja hv. þingmann hvort hún teldi að ríkisstjórnin kæmi inn með einhverjar fleiri breytingar, þ.e. hvort hún sjái almennt að sér þegar kemur að þessum aðgerðum sem dregið var úr eins og ég hef rakið hér. Telur hún von á einhverjum fleiri? Getur hv. þingmaður sem var í fjárlaganefnd sagt mér eitthvað aðeins meira um þetta mál og hvað hér er nákvæmlega á ferðinni? Veit hún um einhverjar fleiri aðgerðir sem ríkisstjórnin dró til baka líkt og hér er verið að gera?