144. löggjafarþing — 125. fundur,  9. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[21:49]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna og í raun og veru undirtektirnar. Ég er feginn því að einhverjir fleiri hugsa á svipuðum nótum, að það sé kannski ástæða til að hyggja betur að þessu en bara að slá þetta af vegna þess að menn telji ekki hættu á því að það hafi í för með sér teljandi líkur á skattundanskotum eða skattafrestunum í það ríkum mæli að til vandræða sé, af því að það eru nefnilega mörg fleiri sjónarmið.

Það er út af fyrir sig alveg ágætis hugsun: Á þetta þá ekki bara alveg eins frekar heima í samkeppnislögum sem liður í því að tryggja eðlilega samkeppni ef við nálgumst málið sem samkeppnismál? En vandinn er auðvitað sá að við erum að innleiða tilskipun um milliverðlagningarreglur og þetta á þá auðvitað heima þar af því að þar eru ákvæðin um skjölunarskylduna að öðru leyti. Þar verða áfram við lýði ákvæði og skylda til skjölunar þegar um teljandi viðskipti er að ræða yfir landamæri. Við erum auðvitað ekki að afnema alla skjölunarskyldu en verið er að fella hana niður innan lands. Hún verður áfram við lýði og mörg af þeim fyrirtækjum sem mundu þurfa að vera með aðeins meiri skjölun ef þau þyrftu að skjala viðskipti sín innan lands, verða hvort sem er með skyldu til að skjala viðskipti út yfir landamærin, við dótturfyrirtæki sín erlendis eða eitthvað því um líkt.

Ég held því þess vegna fram að þetta væri minni breyting og hefði bara jákvætt gildi í sjálfu sér gagnvart samkeppnissjónarmiðunum og samkeppniséttinum, gagnvart trúverðugleika í garð þessara fyrirtækja. Og ef við hefðum einskorðað okkur við að láta þetta taka til stærstu samstæðnanna og samsteypanna, sem hefðu kannski ekki orðið nema 15 til 30 talsins eða eitthvað svoleiðis, yfir tiltölulega háum veltumörkum, þá er náttúrlega engin ástæða til að vorkenna þeim gagnvart einhverjum nokkurra milljóna kostnaði í upphafi og síðan einni til tveimur milljónum á ári við að sinna því. (Forseti hringir.) Ég held að það eigi að skoða það.