144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:06]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S) (andsvar):

Frú forseti. Jú, við erum einmitt tilbúin til að gera það, gera samninga við hjúkrunarfræðinga sem sýna að störf þeirra eru mikils metin, þau eru mikilvæg og borin er virðing fyrir störfum þeirra í heilbrigðisgeiranum eins og fyrir öðrum störfum í heilbrigðisgeiranum og annars staðar í ríkiskerfinu, og við gerum það bæði með því að ganga frá sanngjörnum kjarasamningum, en því eru þó alltaf einhver ytri mörk sett hversu langt er hægt að ganga þar og með öðrum áherslum í heilbrigðismálum í fjárlagagerðinni. Ég hef rakið það hér í dag. Áherslan á að byggja upp nýtt sjúkrahús, risastór áform um uppbyggingu þar. En líka með því að styrkja aðrar stoðir heilbrigðiskerfisins eins og að styrkja heilsugæsluna sem fyrsta viðkomustað sjúklinga og þessi listi er í raun og veru ótæmandi.

Því miður er það þannig að við hér á þinginu verðum aldrei búin með þetta verkefni, því lýkur aldrei. Þetta er eitt helsta verkefni allra þjóðþinga og nágrannaríkja okkar, það er að halda áfram uppbyggingu í heilbrigðiskerfinu.