144. löggjafarþing — 128. fundur,  12. júní 2015.

kjaramál félagsmanna tiltekinna stéttarfélaga BHM og Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga.

798. mál
[18:13]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég geri ekki lítið úr þeirri alvarlegu stöðu sem upp er komin og þeirri stöðu sem ríkisstjórnin stendur frammi fyrir.

Hæstv. ráðherra talar um skandinavíska módelið og ég held að við séum öll sammála um að það sé hægt að finna þessum málum einhvern annan farveg. Það gengur ekki að hver einasta kynslóð sem vex úr grasi upplifi að fara að minnsta kosti einu sinni í langt grunnskólakennaraverkfall og svo aftur í langt framhaldsskólakennaraverkfall og staðan hjá heilbrigðisstéttum sem uppi er núna er auðvitað mjög alvarleg. En þá velti ég fyrir mér: Af hverju hefur ríkisstjórnin ekki unnið að þessum málum í þessi tvö ár? Hefði tímum og peningum ekki verið betur varið í það að tryggja einhvers konar stöðugleikasamráð á vinnumarkaði heldur en fara í 80–100 milljarða útgjöld í einhverja skuldaniðurfellingu sem allir eru búnir að gleyma? Peningarnir fóru í það. Hefði þeim ekki verið betur varið í önnur mikilvægari verkefni, svo sem að tryggja stöðugleika á vinnumarkaði?