144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

tekjuskattur o.fl.

356. mál
[15:44]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Við í Bjartri framtíð styðjum að sjálfsögðu að ríkisstjórnin skuli láta af þeim áformum sínum að lækka framlag til jöfnunar örorkubyrði lífeyrissjóðanna og við styðjum það.

Ég er hins vegar aðeins annarrar skoðunar en hv. þm. Helgi Hjörvar og kollegar mínir í minni hlutanum í efnahags- og viðskiptanefnd um skjölunarskylduna. Ég er ekki sannfærður um að það þurfi að vera skjölunarskylda um viðskipti milli tengdra lögaðila þegar allir aðilar eru heimilisfastir hér á landi. Skjölunarskylda er mikilvæg þegar aðilar eru búsettir í mörgum löndum eða að minnsta kosti tveimur miðað við það sem eru skilyrði til skattundanskota en ef menn eru á sama landsvæði finnst mér ekki þurfa skjölunarskyldu. Þess vegna er ég á áliti meiri hlutans í þessu en ég er með fyrirvara vegna þess að sumar breytingar varða kerfisbreytingar á virðisaukaskattskerfinu sem ég studdi ekki um síðustu áramót. (Forseti hringir.) Ég sit því hjá um það en svo er þarna ýmislegt varðandi tollskrárnúmer á söltuðum sundmögum, kvoðulakki og svoleiðis sem ég hef enga sérstaka skoðun á.