144. löggjafarþing — 131. fundur,  15. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[19:48]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Forseti. Ég held að ég vilji skilja við umræðuna með því að segja að það er náttúrlega brýnt að það fari fram heildarendurskoðun á þessu. Mér finnst við alls ekki mega horfa fram hjá því og gleyma því að tónlistarlífið hér er náttúrlega mjög merkilegt, ég held að ég geti farið rétt með það, hvernig það hefur náðst hér upp og er úti um allt land, enda var fyrir einhverjum áratugum lögð alveg gífurleg áhersla á að efla tónlistarkennslu um land allt. Það getur vel verið að það hafi á þeim tíma fyrst og fremst verið á grunnstigi en það gerist nú þannig sem betur fer, virðulegi forseti, að ef byrjað er á grunnstigi og fólki gengur vel og skólarnir virka þá heldur fólk áfram og vill nema meira og bæta við sig og þá megum við ekki eyðileggja það. Hv. þingmaður nefndi Akureyri þar sem hann þekkir vel til. Ég þekki vel til tónlistarlífsins, ég má segja það, ég þekki vel til þess. Tvær vinkonur mínar reka hvor sinn tónlistarskólann á Ísafirði og það er gífurlegt verk sem þar er unnið og við megum alls ekki glutra því niður, bara alls ekki.