144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[16:55]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Í hinum besta heimi allra heima væri líkast til hægt að hugsa sér að það væru sterkir og öflugir tónlistarskólar á landsbyggðinni þar sem tónlistarkennsla væri í tengslum við framhaldsskólana og yrði greidd til jafns við annað nám af hálfu ríkisins. En sömuleiðis held ég að það væri mjög farsælt að stuðla að því að í framtíðinni verði líka góður kjarni á einum stað sem gæti tekið við úrvalsnemendum sem hygðust leggja þetta fyrir sig áður en þeir héldu utan til frekara náms. Ég held að það væri glæsileg framtíðarsýn. Það mun auðvitað kosta töluvert af fjármagni. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að listnám af öllu tagi sé alveg jafngilt öðru námi. Ég held að hugsanlega sé það betri leið til að þroska sköpunargáfu, til að örva sköpunargáfu, kalla fram frumkvæði og hvers konar sköpunarþrótt. Ég geri mér grein fyrir að menn þurfa hugsanlega að feta sig inn í slíka framtíð. En ég er sem sagt þeirrar skoðunar að þau sjónarmið sem hv. þm. Katrín Jakobsdóttir hefur sett fram séu mjög jákvæð og séu mjög til þess fallin að efla tónlistarkennslu í landinu.

Að því er varðar síðan þetta mál hér þá finnst mér það örlátt af allsherjar- og menntamálanefnd að taka svona upp á sína arma það sem ella má segja að sé kóngsins járn og arbeið sem heyri til hæstv. menntamálaráðherra. Mann undrar auðvitað hvað hefur dvalið þann langa orm í tvö ár. Hvernig í ósköpunum stendur á því að kjörtímabilið er meira en hálfnað? Hann hefur ekki enn lagt fram stefnu í þessum málaflokki. Svo heyrum við hér undir lok þingsins af einhvers konar stefnu sem bersýnilega er mjög umdeild. Besta leiðin til að ná sátt um svona mál (Forseti hringir.) er vitaskuld að koma með hugmyndirnar, ræða þær hér, ræða þær við tónlistarskólana en vera ekki að pukrast með þetta í ráðuneytinu.