144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Svarið er alveg klárt við þessu. Síðustu 25 árin hefur það aldrei gerst. En það hefur heldur aldrei gerst síðasta aldarfjórðunginn að hingað hafi komið inn frumvarp sem er ekki bara á elleftu stundu, það er á hinni tólftu stund. Þetta frumvarp kemur fram þegar þingið átti fyrir nokkrum dögum að vera búið að kveðja og haldið í sumarleyfi. Þessi redding er eiginlega þegar klukkan er slegin 12, dagur er að kveldi kominn og nóttin er fallin á ráðuneytið í þessu máli.

Það má svo velta því fyrir sér hvernig stendur á því að málin eru í þessum farvegi. Ég hef margoft sagt í þessari umræðu að ég hefði viljað fá hæstv. ráðherra til þess að ræða það við hann en eins og við vitum sem erum þaulsætin í þessum sal er hæstv. ráðherra, og hefur verið síðustu vikur og mánuði, sjaldséður gestur í þessum sölum. Mér finnst sem það taki þó í hnúkana þegar menn eru að ræða þessi mál og hæstv. ráðherra kemur ekki fyrr en búið er að flytja helstu átölur og ábendingar til hans. En hæstv. ráðherra er sem sagt mættur. Lengi er von á einum. Þá getur hann skýrt fyrir okkur í fyrsta lagi hvernig á því stendur að hann leggur ekki fram þetta frumvarp. Í öðru lagi tel ég að það sé rétt að við þessa umræðu geri hæstv. ráðherra grein fyrir stefnu sinni varðandi framtíð tónlistarskólanna og hvort það er rétt sem hér hefur komið fram við umræðurnar að hann sé að velta því fyrir sér að draga úr, jafnvel fella niður fjárveitingar til tónlistarskólanna og nota þær í staðinn til þess að byggja upp einn miðlægan tónlistarskóla á framhaldsskólastigi á höfuðborgarsvæðinu.