144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:13]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Væntanlega verður maður vændur um að misnota þennan lið þegar við komum hingað til að kvarta undan fundarstjórn forseta, en það gerum við bara vegna þess að það er margt mjög ámælisvert við fundarstjórn forseta, þar á meðal það að við höfum ekki starfsáætlun.

Persónulega er ég farinn að líta þannig á að í raun og veru þýði ekki mikið að tala við hæstv. ríkisstjórn um nokkuð sem varðar þinglok, þannig að ég lít svo á að við höfum í reynd ákveðið, hvort sem virðulegum forseta líkar betur eða verr, að hér verði sumarþing, reyndar að hér sé skollið á sumarþing ef út í það er farið. Þess vegna finnst mér það sjálfsögð krafa að gerð verði starfsáætlun. Það er algjörlega sjálfsögð krafa. Við eigum að hætta allri sjálfsblekkingu um að hægt sé að forða því. Það er að mínu mati orðið talsvert síðan það var enn þá mögulegt vegna þess að í hvert sinn sem sést til lands kemur eitthvað nýtt frá ríkisstjórninni sem tekur síðan mjög langan tíma að greiða úr. Það hefur alltaf verið þannig. Ég hef enga trú — enga — á því að sé eitthvað öðruvísi núna. Við þurfum starfsáætlun. Ég krefst hennar, virðulegi forseti.