144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[17:49]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég tel að hæstv. ráðherra hafi hreinsað loftið nokkuð vel. Ég er giska ánægður með þetta svar hæstv. ráðherra. Hann segir það alveg fullum fetum að hann stefni að því að leggja fram frumvarp um þetta mál næsta haust jafnvel þó að ekki séu komnar lyktir í viðræður um breytta tekjuskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga. Í öðru lagi skil ég hann þannig að þetta muni ekki leiða til þess að fjárveitingar til tónlistarnáms á landsbyggðinni minnki og í þriðja lagi skil ég hann líka með þeim hætti að framlag komi frá ríkinu til þessa nýja skóla sem ég held að gæti orðið mjög þarft framlag inn í tónlistarnám í landinu, en jafnframt því stefnir hann að því að veita fjárframlög til þess að standa straum af tónlistarnámi þeirra sem eru í kúrsum eða námskeiðum sem gefa einingar til stúdentsprófs. (Forseti hringir.) Ég skil hæstv. ráðherra þannig. Mér líst vel á þetta allt saman og hlakka til að styðja hann í því að fá fjármagn til þessa.