144. löggjafarþing — 134. fundur,  22. júní 2015.

efling tónlistarnáms.

791. mál
[18:07]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held enn og aftur að það sé nauðsynlegt að hafa í huga þá sögu sem er í þessu máli, þ.e. að samkomulag var gert milli ríkis og sveitarfélaga 1989 um verkaskiptinguna þar sem sveitarfélögin tóku að sér að reka námið á framhalds- og miðstigi í söng og á framhaldsstiginu í hljóðfæraleik, og fengu til þess tekjustofna. Síðan skapaðist sérstakt vandamál þegar Reykjavíkurborg, alveg sérstaklega, birti þá stefnu sína að hún ætlaði ekki að greiða fyrir tónlistarnám annarra en þeirra sem ættu heimilisfesti í Reykjavík og borguðu útsvar þar. Fyrir þeirri afstöðu má alveg færa rök en hún hafði veruleg áhrif í mennta- og menningarpólitík okkar. Sterkustu rökin fyrir samkomulaginu 2011 og meginþunginn í því máli voru þessi: Við þurfum þá að setja peninga frá ríkisvaldinu til þess að búa til þennan hreyfanleika þannig að hægt sé fyrir ungmenni og aðra að fara á milli sveitarfélaga.

Þá kemur upp spurningin sem ég held að sé grundvallaratriði hérna, hún snýr þá að þeirri skólahugmynd sem ég hef nefnt, þ.e. að skilgreina hverjir það eru sem þurfa og verða að geta fengið að fara og velja sér skóla einhvers staðar annars staðar en akkúrat í sínu sveitarfélagi. Þá staðnæmist maður alveg sérstaklega við þá nemendur sem eru á leiðinni í slíkt nám sem einhvers konar undirbúning fyrir ævistarf sitt. Það þarf að vera alveg tryggt að þessir nemendur geti farið á milli sveitarfélaga. Það má síðan halda því fram að að öðru leyti eigi ekki að skipta svo miklu máli ef menn stunda nám í sinni heimabyggð og eru þar í framhaldsnáminu ef þetta er nám sem er með öðrum hætti en þeim sem ég lýsti hér. En það er einmitt sú stefnumótun að loka námið af við ákveðin sveitarfélög sem kallar mjög á aðkomu ríkisins. Það er akkúrat það verkefni sem við þurfum að ráðast í, að skýra nákvæmlega fyrir hverja þetta er og hvernig við ætlum að borga fyrir það. Önnur leið væri sú að gera miklar breytingar á kerfinu og ríkið tæki þetta til sín alfarið. En það mundi auðvitað kalla á (Forseti hringir.) mikla röskun og væri mjög flókið verkefni.