144. löggjafarþing — 137. fundur,  25. júní 2015.

Norðurlandasamningur um erfðir og skipti á dánarbúum.

670. mál
[15:53]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frumvarp til laga um breytingu á Norðurlandasamningi um erfðir og skipti á dánarbúum. Með þessu frumvarpi er lagt til að heimilt verði að fullgilda samning sem undirritaður var af hálfu Íslands, Danmerkur, Finnlands, Noregs og Svíþjóðar árið 2012 um breytingu á samningi ríkjanna frá því í nóvember 1934 um erfðir og skipti á dánarbúum. Samningurinn tekur á þeim aðstæðum þegar ríkisborgari í einu af norrænu ríkjunum er við andlát búsettur í öðru norrænu ríki. Helsta efnislega breytingin sem þessi samningur felur í sér er hvaða reglum skuli beitt við búskipti. Meginreglan í gamla samningnum, þ.e. frá 1934, er svokölluð fimm ára regla sem felur það í sér að beitt skuli reglum búseturíkisins hafi hinn látni verið þar búsettur í a.m.k. fimm ár fyrir andlátið. Samkvæmt ákvæðum nýja samningsins verður það áfram meginreglan en það er heimilað að arfleifandi geti kveðið á um það í erfðaskrá að beitt skuli reglum ríkisfangsríkis við búskipti eftir hann.

Nefndin leggur til að þetta frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir þetta nefndarálit skrifa sú sem hér stendur og hv. þingmenn Páll Valur Björnsson, Elsa Lára Arnardóttir, Guðbjartur Hannesson, Anna María Elíasdóttir, Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir og Geir Jón Þórisson.