144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[11:10]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra Sigrúnu Magnúsdóttur fyrir framsögu hennar.

Til að rekja í stuttu máli það ferli sem átti sér stað í umhverfis- og samgöngunefnd þá ákvað nefndin að gefa sér góðan tíma þegar hún fékk málið til umfjöllunar. Á mörgum mánuðum kölluðum við fyrir alla þá sem höfðu einhverja skoðun á því og var enginn undanskilinn. Í kjölfarið náðist mjög gott samkomulag á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég verð nú að nefna einn þingmann sérstaklega, hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur, sem var reiðubúin til að leiða þetta mál í sáttarfarveg.

Það hefur verið sátt um málsmeðferðina. Ég þakka ráðuneytinu sérstaklega fyrir að vinna mjög vel og vandlega, kalla eftir umsögnum og reyna að fá alla aðila að borðinu til að vinna vel að þessu máli. Í mínum huga er aðalatriðið að við samþykkjum náttúruverndarlög sem sátt er um í þjóðfélaginu, sem eru vönduð og Alþingi Íslendinga til sóma.

Það hryggir mig, verð ég að viðurkenna, að hv. þm. Svandís Svavarsdóttir skuli leggja svona mikla áherslu á að lögin taki gildi 15. nóvember. Það mun takmarka starf nefndarinnar. Það mun setja okkur mjög þröngan tímaramma. Því miður hef ég á tilfinningunni að hún vilji hafa þennan málaflokk í átakafarvegi.

Hv. þm. Mörður Árnason, fyrrverandi þingmaður, stýrði þessu ágætlega fyrir kosningar og vann mikla bragarbót á frekar löskuðu frumvarpi. Mér sýnist á öllu að við munum sjá til lands en ég bið um góðan tíma til að klára þetta mál í umhverfis- og samgöngunefnd (Forseti hringir.) eins og við höfðum þegar við fengum málið (Forseti hringir.) til umfjöllunar í fyrra.