144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

minnst látins alþingismanns.

[15:02]
Horfa

Forseti (Einar K. Guðfinnsson):

Háttvirtir alþingismenn. Þær fregnir bárust í gær að einn úr okkar hópi, Pétur H. Blöndal, 4. þm. Reykv. s., hefði andast á heimili sínu að kvöldi sl. föstudags, þá nýlega 71 árs að aldri. Banamein hans var krabbamein sem hann hafði strítt við um nokkurra ára skeið af miklu æðruleysi og hugrekki. Hann sat þingfundi fram undir páska, var síðast hér í ræðustólnum 5. mars sl., lét með öðrum orðum ekki undan síga fyrr en kraftar voru að fullu þrotnir.

Pétur H. Blöndal var fæddur í Reykjavík 24. júní 1944. Foreldrar hans voru Haraldur H. J. Blöndal, sjómaður og verkamaður, og Sigríður G. Blöndal skrifstofumaður. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1965, diplom-prófi í eðlisfræði, stærðfræði og tölvufræði við Kölnarháskóla 1968 og öðru diplom-prófi, í hagnýtri stærðfræði, líkindafræði, tölfræði, tryggingastærðfræði og alþýðutryggingum, við Kölnarháskóla árið 1971. Doktorspróf tók hann við sama háskóla árið 1973.

Heimkominn frá námi varð Pétur sérfræðingur við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands og jafnframt stundakennari við skólann fram til ársins 1977. Það ár varð hann forstjóri Lífeyrissjóðs verslunarmanna, fram til ársins 1984, er hann varð framkvæmdastjóri Kaupþings hf. sem hann stofnaði ásamt öðrum tveimur árum fyrr. Því starfi gegndi hann til ársins 1991 er hann seldi hlut sinn og varð kennari við Verslunarskóla Íslands þangað til hann var kjörinn á þing 1995.

Pétur H. Blöndal varð rúmlega þrítugur landsþekktur fyrir störf sín í fjármálalífi, einkum að trygginga- og lífeyrismálum þar sem sérþekking hans lá. Hann varð frumkvöðull á mörgum sviðum viðskipta. Hann lét svo um mælt að með stofnun Kaupþings hefði ætlunin verið að gefa almenningi kost á að ávaxta og varðveita fé sitt á tímum mikillar verðbólgu og óstöðugleika í efnahagsmálum. Hann fékkst við fjárfestingar og verðbréfaviðskipti en hvatti þó jafnan til aðgæslu með fé, bæði einstaklinga og hins opinbera, og barst sjálfur lítt á í einkalífi. Ráðdeildarsemi var honum í blóð borin. Hann lagði ætíð áherslu á frelsi og ábyrgð einstaklinganna um leið og hann beitti sér fyrir félagslegum umbótum í þágu þeirra sem á þurftu að halda.

Fram að því að Pétur settist á þing tók hann mikinn þátt í félagsstörfum á sviði tryggingamála og almennra viðskipta sem ekki verður rakið frekar hér. Jafnframt ritaði hann greinar í blöð og tímarit um hugðarefni sín og viðfangsefni og fékkst við kennslu. Hann sat meðal annars í stjórn Félags íslenskra tryggingafræðinga um árabil. Hann átti sæti í stjórnum ýmissa fyrirtækja og félaga og skal aðeins nefnt bankaráð Íslandsbanka hf. 1994–1995 og stjórn SPRON 2003–2004.

Pétur Blöndal hlaut gott brautargengi í prófkjöri síns flokks, Sjálfstæðisflokksins, þegar hann fyrst bauð sig fram, fyrir alþingiskosningarnar 1995, og raunar æ síðan. Sat hann samfellt á Alþingi frá 1995 til dauðadags, á 26 löggjafarþingum alls. Pétur rak aldrei skipulega kosningabaráttu í prófkjörum og kvaðst aldrei hafa beðið nokkurn mann um að kjósa sig. Árangur hans var hins vegar góður, enda naut hann mikils álits fyrir skýran og sjálfstæðan málflutning sem átti góðan hljómgrunn víða. Ekki fór hann alltaf troðnar slóðir en eftir skoðunum hans var hlustað af athygli, jafnt af pólitískum samherjum sem öðrum. Hann var frumlegur í hugsun og ætíð opinn fyrir nýjum hugmyndum í stjórnmálum. Þessum hugmyndum tefldi hann ótrauður fram og lét sig engu varða hvort þær væru til vinsælda fallnar eður ei.

Á vettvangi Alþingis vann Pétur Blöndal mest í efnahags- og viðskiptanefnd og var á allmörgum þingum formaður hennar, en hann átti líka sæti í nefndum sem fengust við húsnæðismál, heilbrigðismál og tryggingamál. Hann tók þátt í alþjóðlegu starfi þingmanna og sat í Íslandsdeild þings Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, var þar formaður lengi og áhrifamaður á vettvangi samtakanna.

Í öllum störfum sínum var Pétur H. Blöndal fádæma vinnusamur og samviskusamur. Hann naut þingmennskunnar, var baráttuglaður og lagði oft að baki langan vinnudag. Hann uppskar virðingu fyrir dugnað og sérþekkingu, m.a. á sviði stærðfræði, tryggingafræði, í efnahagsmálum og fjármálum almennt, og ekki síður fyrir heiðarleika sinn og hófstillta og sanngjarna framgöngu í umræðum, bæði í þingsölum og í nefndum Alþingis sem aflaði honum vinsælda utan og innan þings.

Við alþingismenn kveðjum nú ærlegan og góðan félaga og ákaflega minnisstæðan mann sem við öll söknum á þessari stundu.

Ég bið þingheim að taka undir orð mín og minnast Péturs H. Blöndals alþingismanns með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]