144. löggjafarþing — 138. fundur,  29. júní 2015.

loftslagsmál.

424. mál
[16:58]
Horfa

Frsm. minni hluta um.- og samgn. (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Forseti. Ég mæli hér fyrir áliti minni hluta umhverfis- og samgöngunefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál.

Í sjálfu sér má segja að álitið sé að meginstefnu samhljóða áliti meiri hluta nefndarinnar, enda erum við þeirrar skoðunar að Íslandi beri að ganga fram fyrir skjöldu í loftslagsmálum og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda sem mest við megum. Þó er eitt atriði sem við viljum sérstaklega draga fram og ég ætla að gera grein fyrir og það varðar í raun breytingartillögu sem við gerum við frumvarpið og er um tekjuákvæði loftslagssjóðsins.

Í lögum í desember 2014, sem voru um ýmsar forsendur frumvarps til fjárlaga fyrir yfirstandandi ár, var loftslagssjóðnum breytt. Við leggjum til með þessari breytingartillögu að sjóðnum sé breytt til fyrra horfs. Samkvæmt þeirri breytingu sem hér er lögð til fær loftslagssjóður markaðan tekjustofn, sem er þá helmingur tekna íslenska ríkisins af sölu losunarheimilda á uppboði. Þá er gert ráð fyrir að loftslagssjóður styðji við verkefni sem geti stuðlað að samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi, aðlögun að afleiðingum loftslagsbreytinga og aukinni þekkingu almennings á loftslagsbreytingum af mannavöldum. Þetta er í samræmi við það sem að jafnaði er gert við þær tekjur sem ríki innan Evrópu fá fyrir losunarheimildir og er til þess að freista þess að grænka hagkerfin, ef svo má að orði komast, og styðja við þróun í bæði vísindum og tækni að því er varðar loftslagsvæna framvindu.

Við sem undir þetta nefndarálit ritum leggjum sem sé fram breytingartillögu þess efnis og það er sú sem hér stendur, Svandís Svavarsdóttir, sem er framsögumaður minnihlutaálits, og Katrín Júlíusdóttir og Róbert Marshall, öll hv. þingmenn.