144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[10:40]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég vil í örstuttri ræðu leggja áherslu á að í þeim lokafjárlögum sem við ræðum hér við 3. og síðustu umr. kemur mjög skýrt fram hversu vel síðasta ríkisstjórn skildi við og hversu góðu búi núverandi ríkisstjórn tók við. Eins og fram kom í umræðunum hér sem urðu við 2. umr. var það sameiginlegt átak þeirrar ríkisstjórnar sem tók við og síðan fyrri ríkisstjórna, því að þetta var síðasta árið sem var undir fjárlögum sem samþykkt voru í tíð fyrri meiri hluta, skiluðu góðum afgangi. Þar kemur sem sagt líka fram að verið hefur jafn og mjög góður viðsnúningur, hægur en öruggur bati fjögur árin þar á undan. Það skiptir ákaflega miklu máli. Það er auðvitað í takt við það að á mörgum öðrum sviðum skildi sú ríkisstjórn líka eftir góða bita handa núverandi hæstv. ríkisstjórn.

Það blasir til dæmis við að á næstu 18–24 mánuðum munu hefjast fjögur meðalstór stóriðjuverkefni hér á Íslandi. Þeim munu tengjast að minnsta kosti tvær virkjanir. Það mun skipta mjög miklu máli fyrir hagvöxt á Íslandi. Öll þessi verkefni voru ákveðin og sett á teikniborðið í tíð síðustu ríkisstjórnar. Það er auðvitað merkilegt að horfa svo yfir sviðið og sjá að á tveggja ára tímabili núverandi ríkisstjórnar hefur ekkert nýtt verkefni komið upp, meira að segja þau verkefni á sviði gagnavera, sem stundum er verið að hampa hér af hæstv. ríkisstjórn og stjórnarliðum, voru líka öll komin á teikniborðið eða voru ákveðin í tíð síðustu ríkisstjórnar.

Að síðustu, af því að hv. formaður fjárlaganefndar er mættur í salinn, vil ég líka nota þetta tækifæri til þess að segja það sem mína skoðun að mér finnst vera kominn tími til að lokafjárlög séu sett fram með skýrari hætti. Það er mjög erfitt að skilja fyrir okkur sem ekki erum innvígð og eigum setu í fjárlaganefnd ýmsa liði og þætti sem þar eru fram sett. Mér finnst líka að það þurfi að koma fram með skýrari hætti hvaða reglur það eru sem fylgt er þegar menn eru að flytja til dæmis afgang fram yfir áramót. Reglan sem fylgt er og hefur verið fylgt frá því 2008 er að það sem varðar rekstur og er umfram 10% er látið niður falla, 10% mega fylgja. Varðandi stofnkostnað þá eru það 4%. Eins og kemur fram í þessu lokafjárlagafrumvarpi eru dæmi um frávik frá þeirri reglu. Það á sér ábyggilega eðlilegar skýringar, en lifum við ekki á tímum gagnsæis? Lifum við ekki á tímum tærleika? Þurfa menn ekki að geta skilið af hverju reglurnar gilda í sumum tilvikum og sumum ekki? Ég held það, en ég er viss um að með sameiginlegu átaki muni okkur takast að tosa hv. formann fjárlaganefndar inn í nútímann.