144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[10:43]
Horfa

Frsm. fjárln. (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að tefja störfin í þinginu því að búið er að semja um þinglok. En mig langar aðeins að ítreka það sem ég sagði í gær, fyrst enn þá er verið að sækjast hér eftir hrósi fyrir hönd síðustu ríkisstjórnar, þá fór ég yfir það hvernig núverandi ríkisstjórn tók sig til og skar niður ýmis kosningaloforð sem búið var að setja inn sem áætlanir hjá fyrri ríkisstjórn, það er bara allt í fínu lagi með það. Það varð ákveðin stefnubreyting í ríkisfjármálum þegar þessi ríkisstjórn tók við og markið sett á hallalaus fjárlög sem við svo sannarlega náðum.

Ég hef líka farið yfir það áður að það er að mínu mati mjög bagalegt hversu seint við samþykkjum lokafjárlög 2013. Samkvæmt þingskapalögum á að leggja fram ríkisreikning og lokafjárlög sem næst hvort öðru, en það vita nú allir hvernig þingstörfin hafa verið hér á þessu vorþingi, stanslaust og gegndarlaust málþóf. Því miður bitnar það á ýmissi lagasetningu sem er beinlínis kveðið á um í lögum að skuli vera lokið langtum fyrr á árinu. Þetta er eitthvað sem við vonandi komum ekki til með að sjá aftur því að ég held að flestir þingmenn séu búnir að átta sig á því að svona geta þingstörfin ekki farið fram. Þingmenn, starfsmenn þingsins og almenningur er allur búinn að fá nóg af þessu leikriti sem var sett af stað hér fljótlega eftir áramót.

Mig langar til að minnast líka á eitt, vegna þess að komið hefur fram í umræðunni að eitthvað sé óskýrt í þessum lokafjárlögum, þá var það nú svo að frumvarp um opinber fjármál sem við ætluðum að gera að lögum í vor var fullbúið og fullrætt í fjárlaganefnd í mikilli sátt og einungis unnið á faglegum nótum, en þá var stokkið í það að gera það að pólitísku máli á lokametrunum og því fórnað í samningum um þinglok, sem mér finnst afar slæmt, því að ríkiskerfið allt og ekki síst eftirlitsstofnanir með fjárlögum, þá er ég að tala um Ríkisendurskoðun og fjárlaganefnd, eru að bíða eftir þessum lögum því að þau koma til með að einfalda kerfið allt saman og gera fjárlög langtum gegnsærri. Ég harma það að við skyldum ekki hafa getað gert frumvarpið um opinber fjármál að lögum hér á þessu þingi.

Annars er ég ánægð með það sem birtist í lokafjárlögum 2013 og sýnir svo sannarlega viðsnúning hjá ríkisstjórninni eftir mikið niðurskurðartímabil í grunnstoðir hjá fyrri ríkisstjórn og á meðan verið var að eyða fjármagni í nokkurs konar gæluverkefni sem voru óþörf. Forgangsröðunin er skýr, virðulegi forseti, það eru heilbrigðismálin, menntamálin, innviðamál svo sem löggæsla, dómstólar og ekki síst samgöngumál.