144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

lokafjárlög 2013.

528. mál
[11:17]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni. Við höfum áður glímt í þessum ræðustól og gerðum það iðulega á síðasta kjörtímabili. Mér fannst samt illa að formanni fjárlaganefndar vegið þegar fullyrt var að hún væri illa að sér, ég held að það sé einfaldlega rangt, mér fannst ræða hennar góð. Ég skil það þannig að þótt stefnt hafi verið að hallalausum fjárlögum, og stundum fullyrt að það væri þannig við fjárlagagerðina, hafi komið í ljós þegar ríkisreikningurinn var gerður upp og lokafjárlög lögð fram að það náðist því miður ekki. Ég held reyndar að menn hafi verið að gera sitt allra besta. Þetta er kannski líka í ljósi þess að ríkisstjórnin setti sér markmið árið 2009, það kom fram í skýrslu fjármálaráðuneytisins um horfur í fjármálabúskapnum, skýrslan hét eitthvað í þá veru og var unnin í samstarfi við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Þar voru markmið sem því miður náðust ekki, eiginlega langt frá því, vegna þess að ríkisstjórnin hafði ekki dug í sér til að fara í nauðsynlegar aðgerðir til að reisa atvinnulífið við, ég nefni Bakka sem tafðist í sífellu, en voru þó grunnurinn að því að t.d. hagvöxturinn hefði átt að verða mun hærri mun fyrr en hann náðist. Ég vildi koma þessum athugasemdum að vegna þess að mér fannst, þrátt fyrir ágæta ræðu, þetta vera sérstaklega ósanngjarnt.