144. löggjafarþing — 139. fundur,  30. júní 2015.

náttúruvernd.

751. mál
[12:07]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Það er orðið mjög aðkallandi að setja hér nútímaleg náttúruverndarlög. Náttúran þarf sárlega á því að halda að náttúruverndarlög verði uppfærð á Íslandi. Hér er lagt til að í stað þess að fresta gildistöku náttúruverndarlaga, nr. 60/2013, til 1. janúar 2016 verði tíminn notaður til 15. nóvember 2015, samkvæmt breytingartillögu ráðherrans. Við teljum að sú breytingartillaga sé til bóta. Við sitjum engu að síður hjá, eins og kom fram í máli hv. þm. Katrínar Júlíusdóttur, en teljum að það sé fullt færi til að nota tímann vel. Við hefðum talið réttast að náttúruverndarlögin, nr. 60/2013, tækju gildi. Þau hefðu tekið gildi á morgun og það hefði verið hátíð í bæ ef það hefði orðið. Við gerum þó ekki athugasemdir við þennan málatilbúnað þar sem hann er hluti af samningum (Forseti hringir.) um þinglok og væntum þess auðvitað að tíminn verði vel nýttur því að (Forseti hringir.) lengur getur náttúra Íslands ekki beðið.